„Það er mjög mikil óvissa þessa dagana. Það lítur út fyrir að Katrín muni fara í framboð, og hver tekur þá við forystunni í ríkisstjórninni? Þetta virðist allt vera að koma upp á yfirborðið núna og það þarf náttúrulega að eyða þessari óvissu sem fyrst. Jafnframt hefur verið talað um hvort að boða þurfi til kosninga fyrr heldur en ella, en þetta eru allt hlutir sem að ég vona, þjóðarinnar vegna, að við fáum á hreint á næstu dögum,“ sagði Eva í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Það lítur allt út fyrir að þetta sé þá barátta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það er ómögulegt að segja núna til um hver lendingin verður ef til þess kemur. En af þessum tveimur formönnum í þessum flokkum þá hefur kannski staðið minni styr um Sigurð Inga og af því leyti yrði hann augljós kostur. Að sama skapi, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins bendir á, þá eru þeir stærsti flokkurinn á þingi.“
Eva segir að það sé klárlega óvanalegt ef að forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta, þar sem það hafi ekki gerst áður í Íslandssögunni. Hún bendir þó á að sitjandi þingmaður hafi boðið sig fram til forseta, það gerði Ólafur Ragnar Grímsson áður en hann var kjörinn forseti 1996 og þá fór hann í leyfi frá þingstörfum.
„En hvort þetta er óeðlilegt er erfitt að segja til um. En þetta er staða sem við höfum ekki staðið frami fyrir áður að einhver sem er svona mikill forystumaður eða forystukona í stjórnmálum sé að íhuga mjög alvarlega forsetaframboð, sé að íhuga að bjóða sig fram til embættis sem er ópólitískt,“ segir Eva.
Hún telur að Katrín þurfi ekki að segja af sér og hætta á þingi til að fara í forsetaframboð.
„Segjum sem svo að sviðsmyndin verði sú að hún fari í leyfi og fari í framboð, og mögulega hljóti ekki brautargengi. Þá væri kannski svolítið undarleg staða fyrir hana að koma aftur, og þá mögulega aftur sem forsætisráðherra undir forsæti nýs forseta sem hún var í framboði gegn.“