Leiðtogarnir tveir ræddu saman í síma í fyrsta sinn síðan sjö starfsmenn World Central Kitchen létust í ísraelskri loftárás. Í kjölfarið hefur Biden verið harðyrtari í garð ísraelskra stjórnvalda en þau höfðu áður átt að venjast.
Símtalið varði í færri en þrjátíu mínútur og í því gerði Bandaríkjaforseti Netanjahú ljóst að Ísrael þyrfti að taka í gagnið nákvæma, markvissa og mælanlega ferla til að bregðast við mannfalli, mannúðarkrísu og öryggisleysi viðbragðsaðila, samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu.
Guardian greinir frá því að Biden hafi sagt að tafarlaust vopnahlé væri bráð nauðsyn og að hann hafi hvatt Netanjahú til að komast að samkomulagi við Hamasliða án tafar.
Tilkynning Hvíta hússins er ólík þeim sem gefnar hafa verið út áður varðandi samband Bandaríkjanna og Ísraels. Er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjaforseti hefur gefið í skyn skilyrði fyrir stuðningi við Ísraelsmenn.
John Kirby, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, sagði hins vegar að stuðningur Bandaríkjanna við hernað ísraelsmanna væri enn „brynvarinn“ (e. iron-clad).