Innlent

Freyja nýr fram­kvæmda­stjóri blaða­manna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Freyja Steingrímsdóttir hefur störf í maí.
Freyja Steingrímsdóttir hefur störf í maí. Anton Brink

Freyja Steingrímsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands. Hún tekur við starfinu af Hjálmari Jónssyni sem lét af störfum í janúar.

Fram kemur á vef Blaðamannafélags Íslands að Freyja hefji störf í maí. Framkvæmdastjóri BÍ hafi umsjón með og beri ábyrgð á faglegu starfi á vettvangi félagsins, daglegum rekstri og áætlanagerð, sjái um stefnumótun í samráði við stjórn og komi fram fyrir hönd félagsins eftir því sem við eigi og gæti hagsmuna þess.

Stjórn BÍ hafi verið einróma í ákvörðun um ráðninguna. 

„Við erum stolt og ánægð að fá Freyju til liðs við okkur enda kemur hún inn með mikilvæga reynslu meðal annars af hagsmunabaráttu og starfsemi stéttarfélaga. Hún hefur stýrt stórum verkefnum fyrir BSRB og mun reynsla hennar og þekking af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu nýtast vel. Auk þess hefur hún stýrt stórum málefna- og vitundarvakningarherferðum bæði innanlands og erlendis, nú síðast í tengslum við Kvennaverkfallið 2023 sem vakti heimsathygli. Við hlökkum til að starfa með henni að því að efla blaðamennsku og fjölmiðlun, standa vörð um hagsmuni stéttarinnar og efla faglegt starf innan félagsins,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður í tilkynningu.

Freyja er stjórnmálafræðingur með reynslu af hagsmunabaráttu og starfsemi stéttarfélaga, samskiptum við fjölmiðla, stefnumótun, stjórnsýslu og ýmis konar málefnaherferðum. Hún hefur undanfarin ár starfað sem samskiptastjóri BSRB, stærstu heildarsamtaka opinbers starfsfólks á Íslandi. Hún vann áður á Alþingi sem aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar og fyrir það sem ráðgjafi hjá Indigo Strategies í Brussel þar sem hún stýrði meðal annars verk­efn­um fyr­ir regn­hlíf­ar­sam­tök evr­ópskra verka­lýðshreyf­inga og sinnti bæði stefnu­mót­un og hags­muna­bar­áttu í þágu launa­fólks í Evr­ópu. Hún hef­ur einnig starfað hjá Festu - miðstöð um sam­fé­lags­ábyrgð fyr­ir­tækja, Eft­ir­lits­stofn­un EFTA og Evr­ópuþing­inu.

„Ég hlakka til að hlaupa af stað með þessari metnaðarfullu stjórn blaðamanna í þau spennandi verkefni sem framundan eru. Rétt eins og kemur fram í herferð BÍ hefur blaðamennska aldrei verið mikilvægari og ég mun leggja mig alla fram að efla slagkraft og gæta hagsmuna blaðamanna sem og annarra þeirra sem miðla upplýsingum til almennings í hvívetna,“ segir Freyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×