Þetta segir Grímur Grímsson yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu í samtali við fréttastofu. Davíð Viðarsson, umsvifamikill veitingastaðaeigandi, er grunaður um aðild að vinnumansali, peningaþvætti og skipulagðri glæpastarfsemi. Auk Davíðs eru eiginkona hans og bróðir hans í varðhaldi grunuð um aðild að sama máli.
Grímur segir rannsóknina mjög viðamikla en henni miði ágætlega. Sakborningar verði leiddir fyrir dómara í dag. Til þessa hafa dómstólar fallist á allar kröfur lögreglunnar um gæsluvarðhald. Upphaflega voru sex í gæsluvarðhaldi en þremur var sleppt eftir varðhald í á þriðju viku. Þau hafa stöðu sakbornings en um er að ræða bókara fyrirtækja Davíðs, föður hennar og eiginkonu bróður Davíðs.
Uppfært klukkan 12:31
Grímur Grímsson segir að farið verði fram á tveggja vikna gæsluvarðhald en ekki fjögurra eins og hann tjáði fréttastofu í morgun.
Uppfært klukkan 15:40
Í tilkynningu frá lögreglu segir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fallist á kröfuna.
Tveir karlar og ein kona voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðuð í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald, eða til 23. apríl, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið var handtekið í byrjun síðasta mánaðar í kjölfar umfangsmikilla aðgerða, en tilefni þeirra var rökstuddur grunur um skipulagða brotastarfsemi, sem talin er varða mansal, skjalafals, peningaþvætti, brot á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Rannsókn málsins, sem er mjög viðamikil, miðar vel.