Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglu í samtali við fréttastofu. Hann segir rannsókn enn vera í fullum gangi en að ekkert nýtt sé að frétta sem hægt sé að greina frá að svo stöddu.
Gunnar segir ennfremur að engar upplýsingar séu um að ránsfengurinn sé kominn í umferð.
Fréttir bárust af því í lok marsmánaðar að þjófar hafi haft á þriðja tug milljóna króna á brott úr peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudagsins 25. mars. Voru þeir þar að tæma spilakassa Videomarkaðarins, en þjófarnir notuðust við Toyota Yaris bíl sem þeir bökkuðu að peningaflutningabílnum og brutu afturrúðu, taka töskurnar með peningunum og aka á brott. Er talið að þeir hafi ekki verið nema um fjörutíu sekúndur að athafna sig.

Nokkrar mínútur liðu áður en öryggisverðirnir yfirgáfu Catalinu, þar sem þeir voru, og komust að því að búið var að taka peningana úr bílnum. Lögregla á höfuðborgarsvæðinu lýsti síðar um daginn eftir Toyotu Yaris bílnum án þess að greina frá ástæðum þess. Fyrst var greint frá þjófnaðinum daginn eftir.
Töskurnar sjö fundust síðar; tvær við Lágafellskirkju í Mosfellsbæ, ein við Bugðufljót og fjórar úti í móa á Esjumelum, ekki langt frá Ístaki. Töskurnar voru búnar sérstökum litasprengjum sem eiga að springa yfir verðmæti ef reynt er að brjótast inn í töskurnar. Sagði lögregla að vísbendingar væru um að sprengjurnar hafi sprungið í sumum töskunum, en þó ekki öllum. Notast hafði verið við slípirokk til að opna töskurnar.
Peningarnir voru í eigu Happdrætti Háskóla Íslands sem er afar umsvifamikið við rekstur spilakassa víða á höfuðborgarsvæðinu.