Tindastóll er ríkjandi Íslandsmeistari karla í körfubolta en Stólarnir hafa ekki spilað eins og meistarar í Subway deild karla í vetur. Þvert á móti eru þeir á góðri leið með að tryggja sér helstu metin yfir verstu titilvörn sögunnar. Í kvöld fá þeir enn eitt prófið og fall í kvöld gæti orðið liðinu dýrkeypt.
Grindvíkingar léku sér að Íslandsmeisturunum í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitunum og geta því komist í 2-0 með sigri í kvöld. Það myndi þýða að Stólarnir yrðu aðeins einum tapleik frá snemmbúnu sumarfríi.
Pressa frekar en hvatning
Stuðningsmenn Stólanna reyndu að kveikja í sínum mönnum fyrir leik eitt með litlum árangri og munu eflaust mæta aftur kátir og hvetjandi í kvöld. Þeir eru engum líkir. Þeir hafa ekki gefist upp þótt að það líti út fyrir að nokkrir leikmenn liðsins séu hreinlega að bíða eftir að tímabilið klárist.
Síkið hefur í flestra augum verið einn erfiðasti útivöllur landsins en það virðist vera að sá frábæri stuðningur sem Stólarnir fá á Króknum breytist frekar í pressu heldur en hvatningu fyrir leikmenn liðsins.
Stólarnir unnu ellefu heimaleiki í röð í úrslitakeppni áður en kom að lokaúrslitunum í fyrra. Þar lögðu þeir grunn að titlinum með því að vinna þrjá leiki í röð á Hlíðarenda. Valsmenn unnu tvisvar á Króknum og svo aftur í Meistarakeppninni í haust.
Tapa öllum stóru leikjunum heima
Tindastólsliðið vann síðan þrjá af fimm heimaleikjum sínum í deildinni fyrir áramót sem var ekkert rosalega góður árangur á þeirra mælikvarða en þó mun betri en það sem tók við á nýju ári. Stólarnir unnu aðeins tvo af sex síðustu heimaleikjum sínum í deildarkeppninni og báðir þeir sigrar komu á móti liðunum sem féllu úr deildinni.
Í raun hefur Tindastóll tapað fimm heimaleikjum í röð á móti þeim sex liðum sem enduðu ofar en þeir í töflunni og það er sláandi tölfræði fyrir lið sem hefur státað sig af einum sterkasta heimavelli deildarinnar. Síkið lítur nú fyrir að vera þurrt og greiðfært.
Það á að öllu eðlilegu að vera erfitt að spila í Síkinu en er þessa dagana einna erfiðast fyrir Stólana sjálfa. Þeir þurfa að sýna það í kvöld að stuðningurinn í stúkunni gefi þeim orku í stað þess að taka hana frá því þeim.
Leikur Tindastóls og Grindavíkur hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.00.