Töluverður munur er á niðurstöðum nýjustu könnunarinnar sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og birt er í dag og tveggja annarra kannana sem Maskína og Gallup gerðu í síðustu viku. Munurinn liggur fyrst og fremst í því að fylgi tveggja efstu frambjóðendanna er minna í Prósent könnuninni en hjá hinum tveimur könnunar fyrirtækjunum.
Af þeim sem taka afstöðu hjá Prósenti fær Baldur Þórhallsson 29,5 prósent en Katrín Jakobsdóttir 25,3 prósent. Ekki er marktækur munur á fylgi þessarra tveggja. Hins vegar vekur athygli að Katrín mældist með hærri prósentur en Baldur bæði hjá Gallup og Maskínu. Hún fékk 30 prósent hjá Gallup í könnun sem birt var á laugardag á móti 26 prósentum Baldurs, þar sem munurinn var heldur ekki marktækur.

Það munaði hins vegar fleiri prósentustigum á Katrínu og Baldri í könnun Maskínu sem birt var hinn 8. apríl. Þá fékk Katrín 32,9 prósent og Baldur 26,7 prósent.
Það vekur einnig athygli að Jón Gnarr er með svipað fylgi í þriðja sæti hjá öllum þremur könnunarfyrirtækjunum. Hann mældist með 19,6 prósent hjá Maskínu, 18 prósent hjá Gallup og 19,3 prósent hjá Prósenti.
Þá mætir Halla Hrund Logadóttir, einn af nýrri forsetaframbjóðendum, óvænt til leiks með 12,1 prósenta fylgi. Allir aðrir frambjóðendur en þeir sem hér hafa verið nefndir mælast með 5 prósent, Halla Tómasdóttir, eða minna í könnun Prósents.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingum segir öllum þessum könnunum bera vel saman. Helstu tíðindi nýjustu könnunar Prósents væri að Halla Hrund mælist með yfir tíu prósentum og fari upp fyrir Höllu Tómasdóttur.
„Þannig að það verður mjög fróðlegt að sjá í næstu könnunum hvort þarna er um raunverulega fylgisaukningu hjá Höllu Hrund að ræða. Því ef það er tilvikið eru það merkileg tíðindi."
Er hægt að segja á þessari stundu þegar framboðsfrestur er ekki einu sinni runnin út, að baráttan verði fyrst og fremst á milli Baldurs og Katrínar?
„Ég held að það sé of snemmt að segja til um það. Á þessu augnabliki er það auðvitað líklegast. En það er allt of snemmt að fullyrða eitthvað um það. Það getur mikið breyst í kosningabaráttunni," segir Ólafur Þ. Harðarson.
Athugið að tölurnar í könnun Prósents eru aðrar hér en eins og könnunin birtist í Morgunblaðinu og mbl í dag. Hér er aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu í könnuninni til að auðvelda samanburð á milli kannana.