Unglingarnir sjö eru á aldrinum fimmtán til sautján ára og eru sagðir hluti af sama hóp og sextán ára piltur sem stakk biskup við messu í kirkju í Wakeley, úthverfi Sydney. Fimm aðrir unglingar voru færðir til yfirheyrslna. Fleiri en fjögur hundruð lögreglumenn tóku þátt í rassíunum.
David Hudson, aðstoðarlögreglustjóri í Nýja Suður-Wales, sagði að unglingarnir hefðu verið handteknir vegna þess að af þeim væri talin stafa bráð ógn. Piltarnir aðhyllist ofsafengna öfgahyggju sem eigi sér innblástur í trúarbrögðum.
Lögreglan hefur engu að síður ekki fundið neinar vísbendingar um að piltarnir hafi haft ákveðin skotmörk eða tímasetningu mögulegra árása í huga. Krissy Barrett, aðstoðarlögreglustjóri alríkislögreglunnar, sagði að lögregluaðgerðin í dag tengdist ekki minningardegi um fallna hermenn sem er á morgun. Öfgamenn hafa áður stefnt á árásir á þeim degi.
Pilturinn sem stakk biskupinn í síðustu viku var ákærður fyrir hryðjuverk á föstudag. Hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. Auk biskupsins særði hann prest í árásinni.
Stunguárásin kom fast á hæla annarrar sem var framin í verslunarmiðstöð í Sydney. Þar stakk karlmaður fólk af handahófi og myrti sex. Engin tengsl voru á milli árásanna tveggja en árásarmaðurinn í verslunarmiðstöðinni beindi spjótum sínum að konum en lét karla vera.