Umrætt mál snýr að einu af fjórum dómsmálum gegn Trump. Í þessu máli hefur Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, ákært Trump vegna tilrauna hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna 2020 og halda völdum.
Til stóð að hefja réttarhöldin gegn Trump í Washington þann 4. mars en þeim var frestað um óákveðinn tíma vegna kröfu Trumps um að hann njóti friðhelgi frá lögsókn. Smith hefur beðið dómarana um að taka málið fyrir í flýti, svo hægt væri að rétta sem fyrst yfir Trump en það hafa þeir ekki viljað gera, í þessu tilfelli.
Trump og lögmenn hans hafa haldið því fram að ekki sé hægt að ákæra hann vegna einhvers sem hann gerði þegar hann sat í embætti. Lögmennirnir hafa meðal annars sagt að forseti gæti látið hermenn myrða pólitíska andstæðinga sína og ekki væri hægt að sækja þá til saka fyrr en búið væri að ákæra þá fyrir embættisbrot og víkja úr embætti, jafnvel þó viðkomandi væri ekki lengur forseti.
Lögmaður Trumps sagð í dag að forseti gæti skipað herjum Bandaríkjanna að fremja valdarán fyrir sig, ef það væri liður í opinberum störfum hans.
Hægt var að hlusta á málflutninginn í beinni í dag. Hér að neðan má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni, þar sem Trump sjálfur tjáði sig um málið á leið í dómsal í New York og þá má heyra í dómurum, saksóknunum og lögmönnum.
Í öllum málunum gegn Trump hafa hann og lögmenn hans lagt mikla áherslu á að tefja málaferlin fram yfir kosningarnar í nóvember. Sigri Trump Joe Biden í kosningunum gæti hann beitt völdum forsetaembættisins til að stöðva málaferlin eða jafnvel náðað sjálfan sig.
Dómarar Hæstaréttar hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa hraðar hendur þegar það hentar Trump en draga lappirnar í öðrum málum.
Sjá einnig: Úrskurða líklega Trump í vil degi fyrir „ofurþriðudag“
Í frétt Washington Post segir að tæplega þriggja klukkustunda málflutningur í hæstarétti í dag gefi til kynna að þeir dómarar sem skipaðir voru af forseta úr Repúblikanaflokknum, sem eru í meirihluta 6-3, séu líklegir til að senda málið aftur til lægri dómstólastiga og þar með tefja réttarhöldin gegn Trump enn frekar.
Trump sjálfur skipaði þrjá af dómurunum níu í embætti.
Niðurstaða á ekki að liggja fyrir í júní eða mögulega í byrjun júlí og þó dómararnir myndu úrskurða alfarið gegn Trump gæfi það líklega ekki nægan tíma til að rétta yfir Trump fyrir kosningarnar í nóvember.
Það tók dómarana tæpan mánuð að komast að þeirri niðurstöðu að ráðamenn tiltekinna ríkja mættu ekki útiloka Trump á kjörseðlum þar.
Kröfu um algera friðhelgi líklega hafnað
AP fréttaveitan segir líklegt að kröfu Trumps um algera friðhelgi verði hafnað. Spurningar dómarar til saksóknara og lögmanna Trumps, og þá sérstaklega spurningar dómara meirihlutans, í dag gefi þó til kynna að þeir vilji takmarka með einhverjum hætti hvernig hægt sé að ákæra bandaríska forseta.
Tveir dómaranna sem Trump skipaði, þeir Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh, ítrekuðu að þeir væri lítið að hugsa um málaferli gegn Trump. Þess í stað hefðu þeir miklar áhyggjur af framtíðinni og sögðu að úrskurður þeirra myndi hafa áhrif á alla forseta.
Þeir og Samuel Alito gáfu til kynna að málið yrði sent aftur til lægri dómstiga.