Handbolti

Ættingjarnir á­byggi­lega þreyttir á manni

Aron Guðmundsson skrifar
Björgvin Páll í fyrri leik Vals og Minaur Baia Mare
Björgvin Páll í fyrri leik Vals og Minaur Baia Mare Vísir/Hulda Margrét

„Ættingjarnir eru á­byggi­lega orðnir þreyttir á því að maður sé að reyna selja þeim fullt af hlutum,“ segir Björg­vin Páll Gústavs­son, mark­vörður Vals í hand­bolta sem hefur, líkt og aðrir leik­menn liðsins, þurft að grípa til ýmissa leiða til að fjár­magna Evrópu­ævin­týri liðsins í ár.

Á dögunum var greint frá því að leik­menn Vals í hand­bolta þyrftu sjálfir að skuld­binda sig í nokkur hundruð þúsund króna kostnað fyrir hverja um­ferð sem liðið kemst á­fram í Evrópu­keppni.

Vals­menn eru komnir alla leið í undan­úr­slit Evrópu­bikarsins og líkurnar á sæti í sjálfum úr­slita­leik mótsins góðar því liðið vann Mina­ur Baia Mare í N1-höllinni að Hlíðar­enda í fyrri leik liðanna með átta mörkum og heldur því út til Rúmeníu í seinni leikinn í góðri for­ystu.

Ljóst er að kostnaðurinn sem fylgir þessu góða gengi Vals í Evrópu er gríðar­legur mikill fyrir leik­menn. En hvernig er það fyrir leik­menn að þurfa safna saman fjár­munum fyrir þátt­tökunni í Evrópu­bikarnum?

„Það er bara skemmti­legt,“ svarar Björgvin Páll, markvörður Vals sem og íslenska landsliðsins. „Það er á­kveðinn innri hvati sem fylgir þessu. Við erum að safna pening með ýmsum leiðum. Setja perur í smart ljósabekki, selja alls konar huti. Ég held hins vegar að ættingjarnir séu orðnir þreyttir á því að maður sé alltaf að reyna selja þeim einhverja hluti.“

„Þetta hefur verið svona í gegnum árin. Hefur alltaf verið svona. Þetta er lenskan. Svolítið mikið í þetta skipti, því við erum að fara í mikið af erfiðum ferðalögum á þessu tímabili. Löng ferðalög. Mörg flug. 

En það er kannski í gegnum svona framtak sem ástríða allra þeirra sem standa að liðinu skín í gegn? 

„Já það er ekkert grín að leita uppi einhverjar þrjátíu milljónir. Þetta er hellings vinna. Flestir eru að gera þetta í sjálfboðavinnu í kringum félagið. Þetta er erfitt en líka innan vallar. Við ætlum bara að verða Evrópumeistarar innan sem utan vallar.“

Valur mætir Mina­ur Baia Mare úti í Rúmeníu í seinni leik liðanna í undan­úr­slitum Evrópu­bikarsins í hand­bolta í dag klukkan þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×