Upp­gjörið: FH - Vestri 3-2 | FH kom til baka og vann fjórða leikinn í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði tvö mörk fyrir FH liðið í Kaplakrika í dag.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði tvö mörk fyrir FH liðið í Kaplakrika í dag. Vísir/Hulda Margrét

FH tók á móti Vestra á grasinu í Kaplakrika og vann sterkan 3-2 endurkomusigur. Þetta var fyrsti heimaleikur FH og fjórði deildarsigur þeirra í röð. 

Heimamenn voru við stjórnina í upphafi en það voru gestirnir sem komu boltanum fyrstir í netið á 13. mínútu leiks.

Markið kom upp úr skyndisókn, boltinn barst til hægri á Benedikt V. Warén sem gaf góða fyrirgjöf á Andra Rúnar Bjarnason. Hann kláraði svo færið með laglegri kollspyrnu.

FH voru áfram hættulegri aðilinn og lögðu af stað í leit að jöfnunarmarki. Þeir fundu það fljótlega, á 25. mínútu, þegar skoppandi bolti barst frá Ástbirni Þórðarsyni til Sigurðar Bjarts Hallssonar sem þrumaði honum viðstöðulaust í netið.

Þrátt fyrir að FH héldi vel í boltann ógnuðu þeir lítið og það var alls ekkert óðagot hjá Vestra, skipulagður varnarleikur og skilvirkur sóknarleikur sem skilaði öðru marki rétt fyrir hálfleik.

Andri Rúnar Bjarnason var aftur á ferðinni fyrir Vestra, í þetta sinn kom hár bolti upp á Ibrahima Balde sem skallaði þvert fyrir markið. Böðvar Böðvarsson dekkaði en réði ekkert við Andra Rúnar sem ýtti manninum af sér og potaði boltanum í netið.

FH kom af krafti út í seinni hálfleik og jöfnuðu fljótlega. Sigurður Bjartur Hallsson kom boltanum í netið í annað sinn á 47. mínútu, aftur með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Ástbirni Þórðarsyni.

Sigurður komst aftur í frábært færi tíu mínútum síðar en ákvað af óeigingirni að gefa boltann á Björn Daníel frekar en að skjóta sjálfur. Sendingin var góð og Björn Daníel hefði getað rennt sér í boltann, en gerði það ekki og hann rúllaði framhjá markinu.

FH tók svo loks forystuna á 67. mínútu eftir að hafa verið mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Boltinn fór þá í hönd Péturs Bjarnasonar eftir hornspyrnu FH og vítaspyrna dæmd.

Sigurði Bjarti var ekki gefið tækifærið til að fullkomna þrennuna, Úlfur Ágúst Björnsson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi í efra hægra hornið.

Pétur kom boltanum í netið fyrir Vestra skömmu síðar en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Gestirnir gerðu hvað þeir gátu til að sækja jöfnunarmarkið undir lokin og fengu fín tækifæri til en heimamenn héldu út og unnu sterkan 3-2 endurkomusigur.

Atvik leiksins

Tvö slæm atvik og skammt stórra högga á milli í fyrri hálfleik fyrir Vestra. Tarik Ibrahimagic fór meiddur af velli á 39. mínútu og fyrirliðinn Elmar Atli Garðarsson fylgdi honum eftir skömmu síðar. Ekkert alvarlegt hjá Tarik en Elmar gæti verið lengi frá.

Mikið áfall fyrir þunnskipaðan hóp sem hefur þegar misst Eið Aron Sigurbjörnsson og Morten Ohlsen í meiðsli.

Stjörnur og skúrkar

Ástbjörn Þórðarson átti frábæran dag í hægri bakverði FH og lagði upp tvö mörk. Markaskorararnir Sigurður Bjartur og Úlfur Ágúst flottir sömuleiðis.

Andri Rúnar Bjarnason sýndi styrk sinn í fremstu línu Vestra og komst tvisvar á blað. Böðvar Böðvarsson réði lítið við kraftinn í kauða. Ibrahima Balde skilaði fínni frammistöðu um allan völl, hljóp upp í efstu línu þegar þess þurfti og fékk háa bolta en skilaði sér alltaf til baka og varðist vel.

Dómarinn

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson á flautunni, Gylfi Már Sigurðsson og Egill Guðvarður Guðlaugsson til aðstoðar.

Virkilega vel dæmt og ekkert út á þá að setja. Slepptu mönnum meira að segja við spjald og veittu tiltal, sjaldgæf sjón nú til dags en afar ánægjuleg.

Annars voru öll gul spjöld sem fóru á loft verðskulduð og vítaspyrnan hárréttur dómur.

Stemning, umgjörð og vallaraðstæður

Frábær umgjörð í fyrsta heimaleik FH. Stuð og stemning fyrir leik, hvítu tjaldi slegið upp, glóðheitt á grillinu og svellkaldur á krana.

Besta lið sögunnar kynnt, virkilega skemmtileg nýjung sem virkjaði aðdáendur og lokkaði að.

Vallaraðstæður fá að fljóta með enda fyrsti leikur á grasinu í Kaplakrika. 

Leit bara ljómandi vel út, mun grænna en í Vesturbænum og lítið út á aðstæður að setja. Frekar gult reyndar þeim megin sem stúkan er enda skyggir stúkan á sólina meirihluta dags.

Viðtöl

„Mótlætið styrkti okkur bara“

„Geggjuð tilfinning. Skora tvö og þrjú stig, mikilvægast af öllu“ sagði tvöfaldi markaskorarinn Sigurður Bjartur Hallsson strax eftir leik. 

Þrátt fyrir að hafa tvívegis lent undir efaðist FH liðið aldrei um sigur. 

„Það var aldrei spurning hjá okkur að við ætluðum að vinna þennan leik. Mótlætið styrkti okkur bara, við erum góðir að koma til baka og munum alltaf reyna að gera það.“

Það bjuggust flestir við því að Sigurður stigi sjálfur á punktinn þegar FH fékk vítaspyrnu í stöðunni 2-2. Hann gaf vítið þó eftir og Úlfur Ágúst skoraði af öryggi. 

„Úlfur er vítaskyttan okkar. Ég var aldrei að fara rífa boltann af honum eða neitt svoleiðis. Virði það að hann er vítaskyttan og besta vítaskyttan, það er bara þannig.

Alls ekki [pirringur í mér] sko. Líka gott að hann sé kominn á blað, viljum fá framlag frá sem flestum.“

Þeir félagar, Úlfur og Sigurður, leiddu framlínu FH í dag. Þetta var annar leikur þeirra saman í byrjunarliðinu eftir að Úlfur kom frá háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

„[Samstarfið gengur] Bara mjög vel, báðir svipaðar týpur, sterkir í loftinu og vinnum vel í kringum hvorn annan. Geggjað að spila með honum“ sagði Sigurður að lokum. 

„Við náðum að kýla tempóið upp í seinni hálfleik“

Heimir gat glaðst fyrir og eftir leik. Vonandi líka meðan á honum stóð. Vísir/Hulda Margrét

„Alltaf gott að vinna. Fyrsti heimaleikurinn og sterkt að vinna en fyrri hálfleikur var nú ekki til útflutnings. Mér fannst þeir yfir í öllum grunnatriðum leiksins, vantaði meiri hreyfingu og þeir voru klókir. Hægðu á tempóinu, og við leyfðum þeim það, en við náðum að kýla tempóið upp í seinni hálfleik. Sanngjarn sigur fannst mér“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, að leik loknum. 

FH var meira með boltann í fyrri hálfleik en leikurinn virtist samt frekar spilaður á forsendum gestanna. Hvað sagði Heimir við sína menn í hálfleik? 

„Ég sagði þeim að við værum besta liðið í deildinni að koma til baka þegar við lendum undir. Sýndum frábæran karakter.“

Það bjuggust flestir við því að tvöfaldi markaskorarinn Sigurður Bjartur stigi á punktinn og fullkomnaði þrennuna. Það gerði hann ekki heldur gaf vítið eftir til Úlfs Ágústar, sem skoraði af öryggi. Heimir hafði ekkert með valið á vítaskyttu að gera heldur hlustaði á góð ráð aðstoðarþjálfara síns. 

„Vuk er vítaskyttan [en var á bekknum], Úlfur var vítaskytta í fyrra og skoraði held ég úr öllum vítunum. Kjartan Henry [aðstoðarþjálfari FH], var vítaskytta og stjórnar þessu. Hann sagði Úlfur og þá bara hlusta ég.“

Fyrir leik hituðu Hafnarfjarðarbræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson upp. Öllu tjaldað til og á sama tíma var tilkynnt val á besta liði í sögu FH. Heimir var þar meðal leikmanna. 

„Frábært að vera valinn í besta liðið og mikill heiður. Ég fór upp áðan og hitti flesta af þessum snillingum sem ég spilaði með á sínum tíma, gaman að hitta marga sem ég hef ekki hitt lengi. Geggjað að spjalla aðeins saman og fara yfir gamla og góða tíma“ sagði Heimir að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira