„Við erum kampakát með góða niðurstöðu og við leyfðum okkur alveg að fagna í gær,“ segir Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.
Þúsund og einn var á kjörskrá og var kjörsókn rúm 66 prósent. N-listi Nýrrar sýnar hlaut 377 atkvæði og fjóra sveitarstjórnarmenn og D-listi Sjálfstæðisflokks og óháðra hlaut 268 og þrjá menn í stjórn.
„Það er alveg ljóst að við þurfum að setja á oddinn alls konar samskipti við ríkið. Við stöndum hér frammi fyrir mikilli orkuþörf á næstu árum. Við stöndum frammi fyrir því að samgöngumálin okkar eru erfið. Við erum nú með sameinað sveitarfélag og allir þéttbýliskjarnar sundur slitnir með fjallvegum. Við stöndum frammi fyrir því að vera í samskiptum við ríkið um uppbyggingu hjúkrunarheimila á heilbrigðisstofnuninni, segir Páll.
Þá séu ýmis stór verkefni innan sveitarfélagsins sem ráðast þurfi í.
„Það er mikið framundan í uppbyggingu í skólamálum. Við þurfum að byggja nýtt skólahúsnæði á Bíldudal og erum á leið í útboð á því. Þannig að það er af nógu að taka.“
Samhliða þessu voru fulltrúar í fjórar heimastjórnir kosnir. Heimastjórnir eru nú á Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði og fyrrum Barðastrandarhreppi og Rauðastrandshreppi.
„Heimastjórnir hafa ákvörðunarvalda hvað varðar skipulagsmál og leyfisveitingar í sínu nærsamfélagi. Umfram allt held ég að heimastjórnir séu verkfæri til þess að koma málefnum nærsamfélags síns á dagskrá í bæjarstjórn. Þá verður virkilega spennandi að eiga samstarf við heimastjórnir. Við bindum miklar vonir við þær,“ segir Páll.
Fyrsta verkefni sveitarstjórnarinnar verði að auglýsa eftir nýjum sveitarstjóra. Hvorki Þórdís Sif Siguarðardóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar né Ólafur Þór Ólafsson sveitarstjóri í Tálknafirði hafa sóst eftir að sitja áfram.
„Báðir sveitarstjórarnir eru á leið í burtu frá okkur. Það verður sennilega eitt af fyrstu verkefnunum. Svo verður að koma skólabyggingu á Bíldudal í útboð, það verður að vinnast hratt og vel svo við náum að standast áætlanir að kennsla hefjist í grunnskóla þar og leikskóla haustið 2025.“
Þá hefur verið auglýst eftir nýju nafni á sameinað sveitarfélag.
„Við fáum til baka frá örnefnanefnd þær tillögur sem standast lög og kröfur. Svo verður það í höndum íbúa að velja nafn á nýtt sveitarfélag.“