Þá mun starfsfólk í öryggisleit leggja niður störf í fjórar klukkustundir frá klukkan fjögur til átta á föstudagsmorgun. Starfsfólk sem sér um akstur farþega á flugvellinum, til dæmis milli flugvéla og flugstöðvar, leggur síðan niður störf frá klukkan átta til hádegis.
Enn funda stéttarfélög flugvallastarfsmanna með Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu. Fundur hófst á hádegi í gær og var á ellefta tímanum frestað til morguns. Fundað hefur verið í Karphúsinu frá klukkan níu í morgun.
Á fundinum hafa deiluaðilar skoðað hugmyndir sem gætu orðið brú til samkomulags. Enn glittir þó ekki í samkomulag og huga því flugfélögin að aðgerðum á Keflavíkurflugvelli.
Bjóða farþegum að færa ferðir til
Sylvía Ólafsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair sagði félagið hafa undirbúið sig undir verkfallsaðgerðirnar síðastliðna viku í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Við viljum náttúrlega reyna að þjónusta farþega okkar sem best og að þær [verkfallsaðgerðirnar] valdi sem minnstum skaða.“ Sérstaklega sé verið að undirbúa aðgerðir fyrir þann hóp fólks sem er að fljúga frá Keflavíkurflugvelli.
„Og munum bjóða þeim að færa sig annað hvort innan dags eða milli daga. Væntanlega á morgun nema það komi góðar fréttir úr Karphúsinu í kvöld.“
Sylvía segir mikilvægt að þeir sem eru að ferðast á þeim tíma sem verkfallsaðgerðirnar eru boðaðar fylgist vel með nýjustu upplýsingum. „Svo munum við annað hvort bjóða eða finna út úr þessu með þeim ef til þess kemur,“ segir Sylvía.
Sama er uppi á teningnum hjá Play en Birgir Olgeirsson upplýsingafulltrúi Play sagði í samtali við fréttastofu í dag að þegar sé farið að bjóða farþegum flugfélagsins að færa til dagsetningar á ferðum til að lágmarka þann ama sem kunni að skapast af aðgerðum á Keflavíkurflugvelli.