„Að sjá svona marga smáskjálfta þarna lætur mann vilja fylgjast betur með þessu,“ segir Einar Hjörleifsson, vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við Vísi.
Hann segir að stærsti skjálftinn hafi mælst 0,8 að stærð og önnur merki um yfirvofandi kvikuhlaup hafi ekki sést. Enn sem komið er hafi viðbragð Veðurstofunnar ekki verið aukið en almannavarnir hafi þó verið látnar vita af stöðunni.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar væru merki um nýtt kvikuhlaup, líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.