Upp­gjör og við­töl: KA-Fylkir 4-2 | Fyrsti sigur Akur­eyringa í hús

Árni Gísli Magnússon skrifar
KA er komið á blað í Bestu deild karla.
KA er komið á blað í Bestu deild karla. Vísir/Hulda Margrét

KA sótti sinn fyrsta sigur í Bestu deild karla í fótbolta með 4-2 sigri á Fylki fyrir norðan í dag. Heimamenn leiddu 3-0 í hálfleik en Fylkismenn gengu á lagið í þeim síðari og úr varð opinn og skemmtilegur leikur.

Strax á þrjiðu mínútu kom fyrsta mark leiksins og var þar að verki Sveinn Margeir Hauksson sem lék í fremstu víglínu hjá KA í dag. Ívar Örn átti langa sendingu inn fyrir vörn gestanna þar sem Sveinn kom í hlaupinu og lyfti boltanum skemmtilega yfir Ólaf Kristófer í marki Fylkis.

Eftir 25 mínútna leik bættu heimamenn við marki. Hallgrímur Mar keyrði í átt að teig gestanna frá vinstri og setti boltann fast inn á teiginn þar sem Daníel Hafsteinsson var mættur og kláraði færið vel.

KA réði lögum og lofum í fyrri hálfleik og Fylkis menn komust lítið áleiðis gegn vel skipulögðu og ákveðnu KA liði. Undir lok fyrri hálfleiks var Sveinn Margeir óheppinn að skora ekki þegar hann átti frábæran sprett upp völlinn eftir langa sendingu frá Steinþóri Már í markinu. Sveinn lék á ófáa varnarmenn og markmann gestanna en þrumaði boltanum að lokum í slána.

Á þriðju mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks braut Benedikt Daríus á Hallgrími Mar innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Hallgrímur Mar steig sjálfur á punktinn en Ólafur Kristófer varði frábærlega í marki gestanna sem dugði þó skammt þar sem Daníel Hafsteinsson var fyrstur á boltann og lúðraði honum í fjærhornið og tryggði KA 3-0 forystu inn í seinni hálfleikinn.

Fylkismenn gerðu þrefalda breytingu í hálfleik; Ragnar Bragi Sveinsson, Arnór Breki Ásþórsson og Halldór Jón Sigurður Þórðarsson komu inn fyrir þá Sigurberg Áka Jörundsson, Nikulás Val Gunnarsson og Orra Svein Segatta.

Það var eins og nýtt lið hefði mætt til leiks því Fylkir pressaði heimamenn hátt á vellinum sem áttu engin svör og lutu í lægra haldi á öllum sviðum leiksins.

Eftir rúmar sjö mínútur minnkaði Matthias Præst Nielsen muninn fyrir gestina með föstu skoti fyrir utan teig á nærstöngina en þar hefði Steinþór Már í marki KA mögulega getað gert betur.

Áfram héldu Fylkismenn að spila vel og uppskáru annað mark þegar Aron Snær Guðbjörnsson stangaði boltann inn eftir sendingu frá Arnóri Breka.

Gestirnir virkuðu hvergi nærri hættir og leituðu að krafti að jöfnunarmarki. Síðasta mark leiksins kom þó í hlut heimamanna þegar Ásgeir Sigurgeirsson lyfti boltanum yfir Ólaf í marki Fylkis eftir frábæran undirbúning frá varamanninum Viðari Erni Kjartanssyni og kláraði leikinn fyrir KA.

Lokatölur 4-2.

Atvik leiksins

Fjórða mark KA sem tryggði þeim sinn fyrsta deildarsigur í sumar og var öllum KA mönnum á svæðinu létt eftir mikla pressu frá gestunum sem voru að hóta jöfnunarmarki. Viðar Örn Kjartansson gerði frábærlega í að senda boltann í svæðið fyrir Ásgeir sem kláraði færið skemmtilega með því að lyfta boltanum yfir Ólaf Kristófer.

Stjörnur og skúrkar

Daníel Hafsteinsson skoraði tvö mörk og átti góðan leik þangað til hann fór af velli eftir tæpar 60 mínútur. Sveinn Margeir var hættulegur í fremstu víglínu og var óheppinn að skora ekki annað mark.

Í liði Fylkis voru Benedikt Daríus Garðarsson og Mathias Præst Nielsen hættulegir og þá átti Arnór Breki Ásþórsson góða innkomu af bekknum.

Aron Snær Guðbjörnsson byrjaði leikinn í vinstri bakverði en spilaði seinni hálfleikinn mjög vel í miðverði og lét vel til sín taka í varnarleiknum ásamt því að skora mark.

Skúrkstitillinn skrifast á Fylkisliðið í fyrri hálfleik sem einfaldlega var ekki mætt til leiks sem kostaði þá hreinlega leikinn í dag.

Dómarinn

Pétur lögga átti mjög góðan leik með flautuna í dag og var með stóru atriðin rétt og leyfði leiknum að fljóta vel. Kúdos á Pétur!

Stemning og umgjörð

Stemningin á vellinum var dræm, engar trommur eða neitt slíkt og fáir tóku undir þegar vallarþulur reyndi að hvetja fólkið til dáða en umgjörðin alltaf nokkuð góð hjá KA sem er auðvitað bara að bíða eftir því að fá betri aðstöðu til að hafa flottari umgjörð.

„Ef maður fær svona frammistöðu eins og í seinni hálfleik í öllum þessum leikjum sem eftir eru þá kvíði ég engu”

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var nokkuð brattur eftir kaflaskiptan leik þegar lið hans tapaði 4-2 gegn KA fyrir norðan í dag.Vísir/Anton

„Ég met það þannig að KA var miklu betri en við í fyrri hálfleik og við miklu betri en þeir í seinni hálfleik, það er svona einfalt sagt en mér fannst við bara koma illa gíraðir til leiks og fáum á okkur þrjú ódýr mörk og endurspeglaði kannski fyrri hálfleikinn þetta þriðja mark; fáum á okkur horn og gefum þeim víti síðan í framhaldinu og fylgjum ekki eftir í vítinu þannig að fyrri hálfleikurinn í hnotskurn öll þessi móment þarna í lokin. 

Boltinn rúllar frá þeirra eigin vallarhelmingi í gegnum þrjá hafsetna og Óli (Ólafur Kristófer Helgason) sofandi í markinu þannig þetta var náttúrulega ekki nógu gott hvernig við byrjum og fáum á okkur ódýr mörk. Við gerðum breytingar í hálfleik og ákváðum að fara maður á mann og heppnaðist mjög vel og þvílíkt gíraðir inn í seinni hálfleikinn en ef maður fær svona frammistöðu eins og í seinni hálfleik í öllum þessum leikjum sem eftir eru þá kvíði ég engu.”

Er Rúnar ekki vonsvikinn með hversu vond frammistaðan var í fyrri hálfleik eftir að hafa séð liðið spila svona vel í þeim síðari?

“Jú það er alveg rétt hjá þér, bara ömurlegt, það er bara þannig, og veldur mér svolitlum áhyggjum hvernig menn koma inn í þetta, það er bara svoleiðis, en aftur á móti seinni hálfleikurinn var frábær að mestu leyti og við fáum líka dauðafæri í 3-2 sem Ómar (Björn Stefánsson) fær og skýtur rétt fram hjá. 

Síðan nokkrum sekúndum seinna eru þeir komnir einir í gegn og skora á okkur þannig þetta er frekar fúlt en eina sem við getum gert er að halda áfram og fá svona frammistöðu eins og við fengum í seinni hálfleik inn í næstkomandi leiki þannig það er ótrulega mikilvægt fyrir okkur að fá þannig frammistöður.”

Rúnar gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og allt annað var að sjá Fylkisliðið í seinni hálfleik. Eitthvað hlýtur því að hafa gengið á inni í klefa í hálfleiknum.

„Það þýðir ekkert að vera með einhvern æsing, það þýðir ekkert, við fórum aðeins yfir það hvernig þetta var og ákvaðum að fá inn pressu leikmenn, duglega stráka, það var ekki eins og við höfðum ekki duglega stráka fyrir en svona öðruvísi leikmenn og það gekk bara þokkalega.”

Aron Snær Guðbjörnsson byrjaði leikinn í vinstri bakverði en spilaði mjög vel í miðverðinum í seinni hálfleik ásamt því að skora mark.

„Aron er upprunalega miðjumaður og hefur verið að spila hafsent núna hjá okkur, með Elliða í fyrra, og gerir það bara feykivel, ótrúlega öflugur drengur og spilaði þennan leik frábærlega.”

„Ógeðslega gott að fá þessa sigurtilfinningu inn”

Daníel Hafsteinsson skoraði tvö mörk í 4-2 sigri KA á Fylki í dag og var mjög létt eftir að fyrsti sigurinn var kominn í hús.Vísir/Diego

„Bara mjög mikill léttir. Ótrúlega góð tilfinning og líka fínt að fá svona sigurtilfinninguna inn, líka á móti Vestra þó þetta sé önnur keppni þá er alltaf gott að vinna leiki, gefur liðinu sjálfstraust og aðeins léttara yfir öllum þannig bara mjög góð tilfinning.”

Fylkisliðið gerði KA mjög erfitt fyrir í síðari hálfleik með hárri pressu og látum. Hvað fór úrskeiðis hjá KA?

„Ég var í öðru viðtali hérna áðan og ég var eiginlega bara orðlaus þannig það er erfitt að segja til um það. Þeir hafa engu að tapa, þeir geta farið hátt og gerðu það alveg vel, voru að fara út á vængina þar sem við áttum kannski ekki svörin við því en eins og ég segi bara ekki betri greining á því núna.”

Daníel skoraði tvö mörk í dag og átti góðan leik.

„Já mjög sáttur við það, ég átti alveg inni eitt, tvö mörk þannig að ég er bara mjög sáttur með það.”

Seinna mark Daníels kom þegar hann fylgdi eftir vítaspyrnu Hallgríms Mars sem Ólafur Kristófer varði út í teiginn.

„Ég einhvernveginn hafði þetta á tilfinningunni, stundum hefur maður þessa tilfinningu og þá verður maður að vera klár.”

„Ég var hress bara í upphituninni og síðan bara þegar ég hljóp út á völlinn hérna var eins og það væri einhver klemma í ökklanum þannig ég tók enga sénsa og fór bara snemma út af og verð hress í næsta leik”, sagði Daníel sem fór út af eftir tæpar 60 mínútur en hann segist vera klár í næsta leik sem er gegn Stjörnunni á sunnudaginn kemur.

„Já ég reikna með því, ég held að þetta sé eitthvað sem muni fara bara fljótt sko.”

Að lokum kom Daníel inn á að gott væri að fá sigurinn upp á að halda jákvæðri orku í liðinu.

„Það er bara eins og ég segi, ógeðslega gott að fá þessa sigurtilfinningu inn og það er allt miklu léttara, bæði bara lífið almennt og síðan í kringum fótboltann, það er bara svolítið svoleiðis.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira