Enski boltinn

Guardiola um fram­tíðina: Nær því að hætta en vera á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola kyssir hér Englandsmeistaratitilinn sem Manchester City vann, fyrst allra félaga í sögunni, fjórða árið í röð.
Pep Guardiola kyssir hér Englandsmeistaratitilinn sem Manchester City vann, fyrst allra félaga í sögunni, fjórða árið í röð. AP/Dave Thompson

Pep Guardiola gerði Manchcester City að Englandsmeisturum fjórða árið í röð í gær og jafnfram í sjötta sinn á sjö árum. Hann ræddi framtíð sína hjá félaginu eftir 3-1 sigur á West Ham í lokaumferðinni.

Guardiola er með samning hjá City til ársins 2025 og hann ætlar sér að efna hann. Aftur á móti ýjaði þessi 53 ára gamli Spánverji að því að hann gæti yfirgefið félagið eftir ár.

„Staðan er núna sú að ég er nær því að hætta en vera áfram,“ sagði Guardiola.

„Ég hef rætt við klúbbinn og mín tilfinning er að ég vilji halda áfram í eitt ár. Ég verð því áfram á næsta tímabili og við munum svo ræða málin inn á tímabilinu. Þetta eru samt komin átta eða níu ár svo við verðum að sjá til,“ sagði Guardiola.

Guardiola hefur alls unnið fimmtán stóra titla á átta árum sínum hjá Manchester City og þeir gætu orðið sextán með sigri á Manchester United í bikarúrslitaleiknum um næstu helgi.

Guardiola viðurkenndi samt að hann væri orðinn þreyttur og að hann þurfi að finna nýjan innblástur í sumar áður en nýtt tímabil byrjar í ágúst.

„Ég er með samning og ég er hér enn þá. Stundum verð ég svolítið þreyttur en ég elska líka önnur móment. Við erum að að vinna leiki og leikmannahópurinn lítur vel út,“ sagði Guardiola.

„Ég fór að hugsa um það að enginn hefur unnið fjögur ár í röð og af hverju reynum við ekki við það. Núna þegar þegar það er í höfn þá hugsa ég: Hvað er næst?,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×