Kompany er 38 ára gamall Belgi og tekur við liðinu af Thomasi Tuchel. Talið er að Bæjarar greiði fyrra félagi Kompany, Burnley á Englandi, rúmar tíu milljónir punda fyrir þjálfarann.
3️⃣ questions with our new head coach, Vincent Kompany 👋📽️#MiaSanMia pic.twitter.com/sN54Lxlmh9
— FC Bayern Munich (@FCBayernEN) May 29, 2024
Kompany tók við Burnley sumarið 2022 og stýrði liðinu til sigurs í B-deildinni á Englandi á fyrstu leiktíð sinni. Það gekk hins vegar allt á afturfótunum á nýliðinni leiktíð í úrvalsdeildinni þar sem liðið fór beinustu leið niður aftur.
„Það er mér mikill heiður að fá að starfa fyrir þetta félag. Bayern er stofnun í alþjóðlegum fótbolta,“ er haft eftir Kompany í tilkynningu félagsins.
Bayern reyndi við þónokkra þjálfarakosti áður en félagið lenti á Belganum. Xabi Alonso, Ralf Rangnick, Julian Nagelsmann og Oliver Glasner höfnuðu allir félaginu. Eftir þær hrakfarir reyndu Bæjarar að fá Tuchel til að vera áfram á stjórastóli án árangurs.