Viðskipti innlent

Sigurður Tómas­son til liðs við Origo

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurður Tómasson

Origo hefur ráðið Sigurð Tómasson í stöðu framkvæmdastjóra vaxtar og viðskiptaþróunar (e. Chief Growth Officer), sem er ný staða innan félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu. Sigurður tekur til starfa að loknu sumri.

Sigurður hefur undanfarin þrjú ár starfað sem verkefnastjóri hjá sjóðstýringarfélaginu VEX sem rekur framtakssjóðinn VEX I, þar sem hann hefur meðal annars unnið að fjárfestingum sjóðsins á sviði upplýsingatækni. Þar áður starfaði Sigurður hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company á starfsstöð þess í Kaupmannahöfn.

Sigurður er með M.Sc gráðu í fjármálahagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og jafnframt með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er mikill fengur í Sigurði fyrir Origo og tengd félög. Við erum í sóknarhug, bæði innan kjarnastarfsemi Origo á sviði hugbúnaðarlausna og rekstrarþjónustu, en ekki síður í okkar öflugu og hratt stækkandi fyrirtækjum á sviði heilbrigðistækni, netöryggislausna, ferðatækni og viðskiptagreindar; Helix, Syndis, GoDo, Unimaze, Advise og DataLab. Til þess að hámarka árangur slíkra vaxtartækifæra þarf að tryggja virkt eignarhald og stuðning við stjórnendur þeirra í gegnum stefnumótun, rekstraraðhald og fjármögnun,“ segir Ari Daníelsson, forstjóri Origo.

Sigurður segist ganga til liðs við fyrirtækið fullur tilhlökkunar. „Upplýsingatækni er á fleygiferð og tækifærin og verkefnin hafa sjaldan verið jafn spennandi. Hjá Origo og tengdum félögum starfar öflugur hópur fólks sem ég hlakka til að vinna með og læra af, auk þess að nýta mína fyrri reynslu og þekkingu til að styrkja starfsemina enn frekar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×