Handbolti

Rakel tekur við Fram og landsliðsþjálfarinn að­stoðar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir mun stýra Fram í Olís-deild kvenna á næsta tímabili og fær með sér í lið landsliðsþjálfarann sjálfan.
Rakel Dögg Bragadóttir mun stýra Fram í Olís-deild kvenna á næsta tímabili og fær með sér í lið landsliðsþjálfarann sjálfan. Samsett

Rakel Dögg Bragadóttir verður næsti þjálfari kvennaliðs Fram í handbolta og landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson verður henni til aðstoðar.

Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar segir einnig að Rakel og Arnar muni skrifa undir samninga við félagið síðar í dag.

Rakel hefur verið aðstoðarþjálfari Fram undanfarin tvö ár, en hún mun nú taka við stjórnartaumunum hjá liðinu. Hún fær reynslumikinn þjálfara sér til aðstoðar því Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, verður aðstoðarþjálfari hennar.

Arnar hefur verið þjálfari íslenska kvennalandsliðsins frá árinu 2019, en hann hefur ekki þjálfað félagslið síðan 2018 þegar hann gerði ÍBV að Íslandsmeisturum karla. Þrátt fyrir nýja starfið mun Arnar þó áfram stýra íslenska kvennalandsliðinu.

Rakel og Arnar eru að taka við sigursælasta kvennaliði Íslands í handbolta. Alls eru Íslandsmeistaratitlarnir orðnir 23 talsins hjá liðinu og bikarmeistaratitlarnir 16. Síðasti Íslandsmeistaratitill liðsins kom árið 2022 og þá varð liðið síðast bikarmeistari árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×