Vignir Guðjónsson óskaði fyrir hönd Sigtúns Þróunarfélags ehf. eftir framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu girðingar utan um framkvæmdasvæðið, en Sigtún fer fyrir framkvæmdum á svæðinu.
Með afgirðingu svæðis væri verið að tryggja athafnasvæði verktaka á svæðinu, auk þess sem verið væri að tryggja öryggi bæði verktaka og vegfarenda.
Vildu að málið færi aftur fyrir skipulagsnefnd
Fulltrúar minnihlutans voru andvígir áformunum. Arnar Freyr Ólafsson, bæjarfulltrúi B-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista, lögðu fram bókun. Þar stóð „í ljósi inngripa þeirra sem fyrirhugað er að ráðast í og takmarkaðra gagna sem lögð hafa verið fram, þá erum við mótfallin afgreiðslu á svo viðamiklu máli í bæjarráði.“ Þau töldu að leggja þyrfti málið fram á ný í skipulagsnefnd.
Bókun meirihlutans, D- og Á-lista, segir að þeim finnist miður að málið frestist fram að mánaðarmótum, þar sem um sé að ræða öryggisgirðingu sem á að setja upp í samræmi við minnisblað mannvirkja- og umhverfissviðs. Girðingunni sé aðeins ætlað að auka öryggi vegfarenda um Sigtúnsgarð á framkvæmdatíma. Ný gönguleið verði gerði úr Sigtúnsgarði að Kirkjuvegi.
„Staðsetning girðingar tryggir því að hátíðarhöld sumarsins geta farið fram með hefðbundnum hætti í Sigtúnsgarði,“ segir í bókun meirihlutans.