Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að þessi fáheyrða staða tengdist því að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi treysti sér ekki til að afgreiða samgönguáætlun í síðustu viku.
Frá því Vegagerðin bauð út gerð vegfyllinga yfir Gufufjörð og Djúpafjörð í Gufudalssveit í septembermánuði síðastliðið haust hafa engin stór útboð verið auglýst. Þó hafði Vegagerðin kynnt á útboðsþingi í byrjun ársins fimm stórverkefni sem áttu að fara í gang á þessu ári.

Verkefnin sem liggja í salti eru Fossvogsbrú, breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga, smíði brúa yfir firðina tvo í Gufudalssveit, næsti áfangi á Dynjandisheiði og vegagerð yfir Brekknaheiði á Langanesi. Ekkert af þessum verkum er enn farið í útboð, þótt árið sé hálfnað.
Þegar fréttastofan leitaði skýringa frá Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra hafnaði hún sjónvarpsviðtali en sagði að það yrði skoðað í haust hvort eitthvert þessara verka yrði boðið út á þessu ári.
Útboð í haust þýddi að framkvæmdir gætu vart hafist fyrr en á næsta ári, þannig að þetta ár virðist vera fyrir bí.
Einstaka stjórnarþingmenn hafa hins vegar opinberlega gefið skýringar í fréttaviðtölum. Helsta ástæðan sé að kostnaður við Hornafjarðarfljót sé kominn langt fram úr fjárheimildum. Til að fjármagna það verk þurfi að flytja peninga úr öðrum verkum.

Upphaflega stóð til að nýr vegur þvert yfir Hornafjörð yrði að helmingi greiddur með einkafjármögnun á grundvelli laga um samvinnuverkefni. Sú aðferð mislukkaðist í útboði þegar tilboð reyndust of há. Útboðið var þá endurtekið og verkið sett í gang með hefðbundinni fjármögnun, án þess að nægilegar fjárheimildir fylgdu með.
Til staðar er fjárveiting upp á 2.450 milljónir króna en gert hafði verið ráð fyrir að sama fjárhæð, 2.450 milljónir króna, kæmi á móti með einkafjármögnun. Átti verkið í heild þannig að kosta 4,9 milljarða króna.

Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins stóð hins vegar frammi fyrir þeim upplýsingum að áætlaður heildarkostnaður stefndi í 8,9 milljarða króna. Þarna væri því að myndast gat upp á 6,4 milljarða króna, útgjöld sem væru án fjárheimildar.
Þetta er sögð helsta ástæða þess að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að afgreiða samgönguáætlun. Fleira er þó sagt spila inn í, eins og óvissa um endurskoðun samgöngusáttmálans um borgarlínuna, óvissa um breytta gjaldtöku af umferð og óvissa um hvernig fjármagna eigi jarðgöng.

En þingnefndin vakti líka athygli á öðrum vanda með sérstakri bókun, sem skýrir afhverju mörg af boðuðum verkum í samgönguáætlun hafa ekki komist í gang. Það er misræmi milli gildandi samgönguáætlunar og fjárveitinga. Það vantar sem sagt talsvert upp á að Alþingi samþykki nægilegar fjárveitingar til þess að standa við samgönguáætlun.
Þannig átti að hefja breikkun og færslu Suðurlandsvegar við Hveragerði milli Kamba og Varmár í fyrra. Það átti sömuleiðis að hefja breikkun Suðurlandsvegar í útjaðri Reykjavíkur milli Hólmsár og Norðlingaholts í fyrra. Hefja átti brúarsmíði yfir Skjálfandafljót í fyrra og á Austfjörðum stóð til að hefja gerð Axarvegar og borun Fjarðarheiðarganga árið 2022, fyrir tveimur árum. Öll þessi verkefni eru í fullkominni óvissu.

Kannski er eina glætan áform um nýja Ölfusárbrú. Samningar við verktaka um að byggja hana í einkaframkvæmd eru sagðir á lokastigi og búist við niðurstöðu á næstu tveimur vikum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: