Innlent

Meiri­hluti sem vill þjóðar­at­kvæða­greiðslu ekki svo mikill

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Evrópusambandið hefur aðsetur í belgísku höfuðborginni Brussel. Innganga eða ekki innganga hefur verið þrætuepli í íslensku samfélagi um árabil.
Evrópusambandið hefur aðsetur í belgísku höfuðborginni Brussel. Innganga eða ekki innganga hefur verið þrætuepli í íslensku samfélagi um árabil. Vísir/EPA

Rúmlega 55 prósent landsmanna vill að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Rúmlega fjörutíu prósent er fylgjandi fullri aðild Íslands að sambandinu samkvæmt nýrri könnun.

Vísir fjallaði um nýja könnun Maskínu fyrir Evrópuhreyfinguna í vikunni. Þá kom fram að tæplega þrír fjórðu landsmanna væri hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Í framsetningu sinni til fréttastofu tók Evrópuhreyfingin aðeins með í reikninginn þá sem tóku ákveðna afstöðu til spurninganna en ekki þá sem svöruðu: hvorki hlynntur né andvígur aðild; að hagur heimilanna yrði eins við aðild; að það væri í meðallagi mikilvægt eða lítilvægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna.

Réttara hefði verið að birta einnig tölurnar í heild sinni og er það gert hér.

  • Hlynnt aðild voru 42,4%, hvorki né 21,9% og andvíg 35,7%.
  • Hag heimilanna töldu 50,4% verða betri við aðild, 24,5% verða eins og 25,1% verri.
  • Þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna töldu 55,3% vera mikilvægt, 25,5% í meðallagi mikilvægt en 19,2% lítilvægt.

Fyrri frétt hefur verið uppfærð og má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×