Á fundinum minntist Biden á framgöngu sína í fyrri kappræðum kosninganna sem fóru fram í síðustu viku. Hann er sagður hafa misst þráðinn stöðugt, átt erfitt með að einbeita sér að því að svara og farið úr einu í annað.
„Síðan þá hefur fólk velt fyrir sér hvað ég ætli að gera. Hér er svarið mitt við því, ég er í framboði og ég er að fara að sigra aftur,“ sagði Biden á kosningafundinum í borginni Madison.
Í umfjöllum BBC segir að ræða Biden hafi verið mun kraftmeiri en framkoma hans í kappræðunum á CNN. Hún komi á mikilvægum tíma í kosningabaráttu Biden, þegar margir af hann stuðningsmönnum íhuga hvort þeir geti haldið áfram að styðja hann.
Einn áheyrandi á kosningafundinum hélt á skilti sem á stóð: „Láttu kyndilinn ganga, Joe!“. Á öðru skilti stóð: „Bjargaðu arfleið þinni, stígðu til hliðar!“.
Biden vakti athygli á þessum skiltum og sagðist sífellt heyra um hve gamall hann væri. Þrátt fyrir háan aldur hafi hann áorkað miklu í embætti. „Var ég of gamall til að skapa fimmtán milljón störf? [...] Var ég of gamall til að fella niður námslánaskuldir fyrir fimm milljónir Bandaríkjamanna?“ sagði hann.
Demókrataflokkurinn hefur sætt miklum þrýstingi úr ýmsum áttum um að velja sér nýjan frambjóðanda vegna hás aldurs Biden og sýnilegra ummerkja um hrakandi heilsu hans.
Þrýstingurinn virðist hafa aukist eftir fyrri kappræðurnar, en niðurstöður nýlegrar könnunar sem gerð var meðal almennings í Bandaríkjunum benda til þess að 72 prósent kjósenda telja Biden ekki hafa vitsmunalega getu til að sinna embættinu.
Í gær viðurkenndi Biden í viðtali að hann hefði klúðrað kappræðunum en skellti skuldinni á flugþreytu, of þétta dagskrá og svefnleysi. Hann hafi ekki hlustað á starfsfólkið sitt og næstum sofnað í sjónvarpssal.