Íslenski boltinn

FHL jók for­skotið og dýr­mætur sigur Þróttar

Sindri Sverrisson skrifar
FHL er á toppi Lengjudeildar kvenna og virðist á góðri leið með að komast upp í efstu deild.
FHL er á toppi Lengjudeildar kvenna og virðist á góðri leið með að komast upp í efstu deild. @FHL Fótbolti

Leikið var í Lengjudeildum karla og kvenna í dag og eru Austfirðingar í góðum málum í Lengjudeild kvenna þegar mótið er rúmlega hálfnað, með sex stiga forskot á toppnum. ÍBV færðist nær toppi Lengjudeildar karla og Þróttur vann dýrmætan sigur í botnbaráttunni.

Í Lengjudeild kvenna vann FHL, sameinað lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis F., 3-0 sigur gegn Selfossi á heimavelli. Öll mörkin komu í seinni hálfleik en það var Emma Hawkins sem skoraði fyrstu tvö mörkin og lokamarkið var svo sjálfsmark Evu Ýrar Helgadóttur.

FHL er nú sex stigum á undan Aftureldingu sem er enn í 2. sæti þrátt fyrir 4-1 tap gegn ÍBV í Eyjum í gær. Í sömu deild gerðu ÍR og Fram 3-3 jafntefli í dag en ÍR-ingar eru áfram á botni deildarinnar, með fjögur stig, og Fram er í 7. sæti með 12 stig.

Eyjamenn færast nær toppnum

Í Lengjudeild karla unnu Eyjamenn 1-0 sigur á Leikni R., með marki Vicente Rafael Valor Martínez á 26. mínútu. Leiknismenn misstu Arnór Inga Kristinsson af velli með rautt spjald á 66. mínútu. ÍBV er nú með 19 stig í 3. sæti, fimm stigum á eftir toppliði Fjölnis eftir 11 umferðir. Leiknir er með 12 stig, tveimur stigum frá fallsæti.

Þróttarar lentu 1-0 undir í Laugardalnum, gegn Dalvík/Reyni, snemma í seinni hálfleik en náðu engu að síður að landa 4-1 sigri. Kári Kristjánsson og Hlynur Þórhallsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Þrótt eftir að Áki Sölvason hafði komið gestunum að norðan yfir.

Þróttur komst með sigrinum úr fallsæti og er með 12 stig líkt og Keflavík og Leiknir, en Grótta er nú í fallsæti með 10 stig og Dalvík/Reynir neðst með 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×