Innlent

Meintur strípa­lingur og sjö til við­bótar gistu fanga­geymslur lög­reglu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ölvaðir einstaklingar komu nokkuð við sögu lögreglu í nótt.
Ölvaðir einstaklingar komu nokkuð við sögu lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm

Átta gistu fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þar af fjórir sem voru til vandræða vegna ölvunar. Sex ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.

Lögreglu í umdæminu Grafarvogur/Árbær/Mosfellsbær barst tilkynning um nakinn einstakling sem var sagður veitast að bifreiðum. Lögregla fór á vettvang og reyndist viðkomandi augljóslega undir áhrifum. Var hann vistaður í fangaklefa.

Tveir einstaklingar voru handteknir í miðborginni vegna brota á lögreglusamþykkt en báðir voru ölvaðir. Annar þeirra er sagður hafa gengið niður miðbæinn með flösku í hönd, barið í glugga, sparkað í ruslatunnur og verið með almenn leiðindi.

Þá voru tveir aðrir vistaðir í fangeklefa sökum ölvunar en báðir fundust sofandi á gangstétt í miðborginni. Voru þeir handteknir til að tryggja öryggi þeirra og sofa úr sér í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Lögreglu barst einnig ósk um aðstoð vegna einstaklings í annarlegu ástandi, sem var handtekinn í og verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt. Þá var tilkynnt um innbrot og eignaspjöll.

Þrír ökumenn voru handteknir í höfuðborginni grunaðir um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×