Fótbolti

FCK hafnar risatilboði frá Spáni í Orra Stein

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FCK vill ekki missa Orra Stein Óskarsson úr sínum röðum.
FCK vill ekki missa Orra Stein Óskarsson úr sínum röðum. Anders Kjaerbye/Getty Images

Danska úrvalsdeildarliðið FC Kaupmannahöfn hefur hafnað risatilboði frá spænska úrvalsdeildarfélaginu Girona í Orra Stein Óskarsson.

Blaðamaðurinn Farzam Abolhosseini hjá danska miðlinum Tipsbladet að Girona sé tilbúið að greiða vel yfir hundrað milljónir danskra króna fyrir Orra, en það samsvarar rétt rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna.

Abolhosseini greinir einnig frá því að Girona hafi nú þegar boðið Kaupmannahafnarliðinu ellefu milljónir evra, eða 82,5 milljónir danskra króna, fyrir Orra Stein, en að félagið hafi nú þegar hafnað því tilboði.

Það samningstilboð fól einnig í sér árangurstengdar bónusgreiðslur sem hefðu komið kaupverðinu yfir hundrað milljónir danskra króna.

Sune Smith-Nielsen, íþróttastjóri FCK, segir hins vegar að félagið hafi stór áform fyrir Orra Stein og því hafi Kaupmannahafnarliðið hafnað tilboðinu.

Félagið sér fyrir sér að þessi 19 ára gamli íslenski landsliðsmaður muni leika stórt hlutverk fyrir liðið á komanid árum og því hafi tilboðinu verið hafnað.

Búist er við því að Orri Steinn verði fyrsti kostur Jacobs Neestrup, þjálfara FCK, í framherjastöðuna á næsta tímabili. Girona, sem hafnaði í þriðja sæti spænsku deildarinnar á síðasta tímabili, vill hins vegar klófesta framherjann og fá hann til liðs við félagið í stað Artems Dovbyk sem er á leið til Atlético Madrid.

Alls skoraði Orri Steinn tíu mörk fyrir FCK í dönsku deildinni á síðasta tímabili. Þar af skoraði hann sex mörk í tíu leikjum eftir að deildinni var skipt upp í efri- og neðri hluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×