
M3 fasteigaþróun bauð rúma 2,8 milljarða samanlagt í byggingarreitina Héðinsgata 1 og Héðinsgata 2, en Reir ehf. bauð samanlagt tæplega 2,2 milljarða. Örn Kjartansson framkvæmdastjóri M3 fasteignaþróunar segir að nú hefjist væntanlega viðræður við Reykjavíkurborg um framhaldið út frá nýju deiliskipulagi sem væri mun betra en áður hefði gilt.

„Hugmyndin er auðvitað að fara hratt af stað og hefja uppbyggingu þarna sem fyrst.“
Hvenær gætu framkvæmdir hafist og hvenær sjáið þið fyrir ykkur að þeim gæti lokið?
„Hluti af framkvæmdum er auðvitað að hanna. Þannig að það er það fyrsta sem gerist. Það sést kannski ekki beint á reitnum strax. En ég hugsa að fljótlega upp úr kannski fyrsta ársfjórðungi á næsta ári myndu framkvæmdir hefjast,“ segir Örn. Verkefnið muni taka þrjú til fjögur ár þannig að því gæti lokið á árunum 2028 til 2029.
Tilraunir Reykjavíkurborgar til að byggja íbúðarhúsnæði í Vesturbugt, vestur af slippnum í gamla Vestubænum, má rekja allt aftur til október 2012 þegar lögð var fram lýsing vegna deiliskipulags á svæðinu. Hinn 4. maí 2016 óskaði Reykjavíkurborg eftir umsóknum um þátttöku í forvali og vegna byggingarréttar og uppbyggingar á lóðunum.

Rétt um ári síðar eða 18. apríl 2017 skrifaði Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri undir samkomulag við VSÓ og nýstofnað félag, Vesturbugt, um uppbyggingna. Tekið var fram að framkvæmdir ættu að hefjast eftir 18 mánuði.
Ekkert varð hins vegar af þeim og eftir mikið japl, jaml og fuður rifti Reykjavíkurborg samningnum vegna vanefnda lóðarhafa. Þá voru liðin sjö ár frá undirritun samninga án þess að nokkuð hafi verið gert.
Byggingarlóðirnar voru síðan boðanar út að nýju hinn 24. júní á þessu ári og hafði íbúðum á reitnum þá verið fækkað úr 195 niður í 177. M3 fasteignaþróun var eins og áður sagði með hærra tilboð af tveimur og segir framkvæmdastjóri félagsins þetta vera mjög spennanid verkefni, með fjölbreyttum stærðum af íbúðum.

„Allt frá littlum tveggja herbergja íbúðum og upp í stærri íbúðir. Þetta er náttúrlega gríðarlega skemmtilegur staður. Teygir sig lengra en fólk sér reitinn í dag,“ segir framkvæmdastjóri M3 fasteignaþróunar. Húsin verði nær höfninni en Rastagatan gefi til kynna í dag því hún verði færð nær sjónum.
„Þetta er gríðarlega spennandi staðsetning. Ég held að það sé tími til kominn að það fari að hefjast framkvæmdir á þessum reit,“ segir Örn Kjartansson. Framkvæmdin lúti almennum skiyrðum borgarinnar um ákveðið hlutfall leiguíbúða og svo framvegis.