Innlent

Hjólar í Ís­land vegna veikindaréttar at­vinnu­lausra

Árni Sæberg skrifar
Vinnumálastofnun greiðir út atvinnuleysisbætur, nema til fólks sem er erlendis í öðrum tilgangi en í atvinnuleit.
Vinnumálastofnun greiðir út atvinnuleysisbætur, nema til fólks sem er erlendis í öðrum tilgangi en í atvinnuleit. Vísir/Vilhelm

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur ákveðið að vísa máli sem varðar skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tímabundinnar dvalar bótaþega í öðru EES-ríki til EFTA-dómstólsins. Stofnunin telur Ísland brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins með því að fella niður bætur þegar fólk fer úr landi til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Í fréttatilkynningu frá ESA segir að íslensk löggjöf kveði á um að atvinnulaus einstaklingur skuli vera búsettur og staddur á landinu til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. 

Fær fimm daga á Íslandi en engan annars staðar

Eina undantekningin frá þeirri reglu sé ef atvinnulaus einstaklingur er í atvinnuleit í öðru EES-ríki. EES-samningurinn geri einstaklingum hins vegar einnig kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum, en engin undanþága sé veitt frá viðveruskyldu á Íslandi fyrir atvinnulausa einstaklinga. 

Atvinnuleysisbætur séu því ekki greiddar þá daga sem viðkomandi er erlendis að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Til samanburðar eig atvinnulaus einstaklingur fimm daga veikindarétt og geti sótt sér heilbrigðisþjónustu hér á Íslandi án þess að bætur séu skertar.

ESA telji að með því að skerða atvinnuleysisbætur í slíkum aðstæðum hafi Ísland ekki gætt að skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum að því er varðar réttinn til að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum.

Lokaskrefið eftir nær tveggja ára baráttu

ESA hafi áður sent íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf í október 2022 og rökstutt álit í maí 2023.

Vísun mála til EFTA-dómstólsins sé lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi. EFTA-dómstóllinn muni nú dæma í málunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×