Nær öruggt er að fullyrða að það sé fordæmalaust að fréttamiðlar slengi vörumerkistákni við skráð vörumerki í skriflegri umfjöllun. Sú hefur þó verið raunin á vefsíðu RÚV í aðdraganda Ólympíuleikanna í ár. Þar hefur vörumerkistáknið ™ staðið við fréttaflokkinn „Ólympíuleikar“ fram að þessu. Ensk heiti Ólympíuleikanna eru skráð vörumerki Alþjóðaólympíunefndarinnar á Íslandi.
Hilmar Björnsson, íþróttastjóri sjónvarps hjá RÚV, segir kröfuna um að heitið „Ólympíuleikar“ sé merkt með vörumerkistákni komi fram í ítarlegum bæklingi sem réttarhafar útsendinga frá leikunum eins og RÚV fái um hvað þeir mega og eiga að gera í umfjöllun sinni um þá.

„Við vorum bara að fylgja nákvæmlega því sem við erum beðin um að gera,“ segir Hilmar.
RÚV hafi þó gert athugasemd við þetta og býst Hilmar við að táknið verið fjarlægt af vefsíðunni, jafnvel strax í dag. Erlendir fjölmiðlar sem senda frá leikunum hafa ekki notað vörumerkistáknið í sinni umfjöllun.
Allt þarf svo að hljóta náð fyrir augum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Þannig þurfti RÚV einnig að leggja það fram og fá samþykkt frá nefndinni að fá að nota orðalagið „heimili Ólympíuleikanna“ sem þótti þjálla en „alþjóðlegur útsendingaraðili“ í lógói sem verður einnig að fylgja umfjölluninni.