Innlent

„Þó nokkur að­gerð“ að sækja göngu­manninn sem steig í hver

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir leiðindaveður hafa sett strik í reikninginn. 
Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir leiðindaveður hafa sett strik í reikninginn.  Vísir/Tómas

Um fimmtíu manns komu með einum eða öðrum hætti að björgunaraðgerð í dag þegar göngumaður í Kerlingarfjöllum steig ofan í hver og hlaut áverka á fæti. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús frá Ásgarði með þyrlu Landhelgisgæslunnar um áttaleytið í kvöld. 

Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að búið hafi verið að sárum hins slasaða á slysstað og honum komið fyrir í sérstakri dýnu til flutnings. Síðan hafi hann verið borinn þó nokkuð langa vegalengd. 

Björgunarsveitarbíl hafi síðan verið ekið inn gamlan vegaslóða og mannskapurinn ferjaður þaðan að Ásgarði þar sem þyrla flutti hann til aðhlynningar. Fyrr í dag kom fram að maðurinn sé talinn vera með þriðja stigs bruna upp að hné. 

Jón Þór segir veðuraðstæður hafa verið slæmar, en gul viðvörun tók gildi á svæðinu klukkan tvö í dag. Hann segir þyrluna ekki komist að slysstað sökum skyggnis, eins og kom fram fyrr í dag.

Jón Þór segir að viðbragðsaðilar hafi verið orðnir frekar blautir í lok dags.Vísir/Tómas

„Þannig að þetta er búið að taka tíma og um fimmtíu manns víða af landi hafa komið að þessu,“ segir Jón Þór og nefnir auk björgunarsveitarmanna sjúkraflutningamenn, landverði og leiðsögumenn í Kerlingarfjöllum. Á tíunda tímanum hafi aðgerðum verið lokið þegar björgunarfólk kom til byggða.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×