Fótbolti

Björguðu endi ferilsins hennar Mörtu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabi Portilho fagnar hér sigurmarki sínu á móti Frökkum í kvöld.
Gabi Portilho fagnar hér sigurmarki sínu á móti Frökkum í kvöld. Getty/Robert Cianflone

Brasilíska kvennalandsliðið í fótbolta varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Paris.

Brasilía vann þá 1-0 sigur á Frakklandi í leik liðanna í átta liða úrslitunum.

Gabi Portilho var hetja brasilíska liðsins en hún skoraði eina mark leiksins á 82. mínútu leiksins.

Brasilíska goðsögnin Marta lék ekki með liðinu í kvöld því hún tók út leikbann eftir að hafa fengið beint rautt spjald á móti Spáni í síðasta leik riðlakeppninnar.

Marta hefur tilkynnt að þetta sé hennar síðasta stórmót með landsliðinu og umræddur leikur með rauða spjaldinu hefði því getað verið hennar síðasti landsleikur á ferlinum.

Liðsfélagarnir björguðu því endi ferilsins hennar Mörtu sem fær að spila undanúrslitaleikinn á móti heimsmeisturum Spánar sem fer fram 6. ágúst næstkomandi. Bandaríkin og Þýskaland mætast í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×