Sport

„Þetta er þúsundum sinnum þess virði“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vivianne Robinson er að njóta tímans í París en hún er að mæta á sína sjöundu Ólympíuleika á fjörutíu árum.
Vivianne Robinson er að njóta tímans í París en hún er að mæta á sína sjöundu Ólympíuleika á fjörutíu árum. Getty/Sebastian Kahnert

Ofuraðdáendi Ólympíuleikanna keypti miða á 38 viðburði og hefur aldrei eytt svona miklum peningi í ferð á leikana.

Vivianne Robinson fer ekkert fram hjá neinum þegar hún gengur um stræti Parísar á leið sinni á milli viðburða á Ólympíuleikunum.

Þessi bandaríska kona gengur um með risa Ólympíuhatt og er með Ólympíunælur af öllum gerðum festar á bæði hatt sinn og peysu.

Það er líka óhætt að kalla Vivianne ofuraðdáenda Ólympíuleikanna. Hún er að mæta á sína sjöundu Ólympíuleika á síðustu fjörutíu árum en allt byrjaði þetta á heimavelli í Los Angeles árið 1984.

AP-fréttastofan tók viðtal við hana og komst að því að ferðin til Parísar kostar hana alla hennar sparipeninga.

Ein af uppáhaldsborgunum mínum

„Ég hef aldrei áður eytt svona miklu í eina Ólympíuleika. Ég var alveg staðráðin í því að ná að sjá Ólympíuleikana í París sem er ein af uppáhaldsborgunum mínum,“ sagði Vivianne Robinson.

„Ég eyddi meira en tíu þúsund dölum til að komast hingað og fór yfir um á næstum því öllum kredit kortunum mínum,“ sagði Vivianne en það eru meira en 1,3 milljónir í íslenskum krónum.

„Ég var í tveimur störfum, einu á ströndinni á morgnanna og svo í öðru á kvöldin í matvöruverslun. Ég sparaði bara og sparaði,“ sagði Vivianne.

Erfitt að safna fyrir þessu öllu

„Ég var líka alltaf að kaupa miða á leikana og endaði með 38 miða á viðburði á leikunum,“ sagði Vivianne.

„Ég fór kannski aðeins yfir um en ég er njóta tímans hér. Það var erfitt að safna fyrir þessu öllu saman en þetta er þúsundum sinnum þess virði,“ sagði Vivianne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×