Uppgjörið: Keflavík - Víkingur 1-2 | Víkingar unnu suður með sjó Þorsteinn Hjálmsson skrifar 10. ágúst 2024 15:55 vísir/diego Keflavík fékk Víking í heimsókn í dag í Bestu deild kvenna. Var leikurinn liður í 16. umferð deildarinnar. Lauk leiknum með 1-2 sigri gestanna sem hafa þar með svo gott sem tryggt sig í efri hluta deildarinnar. Keflavík er enn í harðri fallbaráttu á botni deildarinnar. Gestirnir komust í forystu eftir aðeins um sex mínútna leik. Freyja Stefánsdóttir gaf þá boltann út í teig Keflavíkur, beint á Bergdísi Sveinsdóttur. Náði hún föstu skoti beint á markið sem Vera Varis, í marki Keflavíkur, réði ekki við. Á 23. mínútu dæmdi sænskur dómari leiksins, Selma Griberg, víti á Rachel Diodati fyrir klaufalegt brot á Melanie Claire Rendeiro. Anita Lind Daníelsdóttir fór á punktinn og lúðraði boltanum hátt yfir markið úr spyrnunni. Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta og mikið var um stöðubaráttu og klafs það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan 0-1 í hálfleik. Síðari hálfleiknum hófst líkt og þeim fyrri lauk og í raun lítið að gerast. Það var ekki fyrr en á 69. mínútu að það dró til tíðinda. Slapp þá Linda Líf Boama skyndilega ein í gegn eftir langa sendingu fram völlinn. Kláraði hún færið örugglega og kom Víkingi í þægilega tveggja marka forystu. Keflavík tókst þó að skora mark eftir hornspyrnu á 88. mínútu og hleypa lífi í lokamínúturnar. Simona Meijer var þar að verki í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík, en hún skoraði með föstum skalla. Keflavík tókst þó ekki að jafna leikinn og því fór sem fór. Lokatölur 1-2, líkt og fyrr segir. Atvik leiksins Vítaklúðrið hjá Anitu Lind var atvik leiksins. Miðað við gang leiksins og færaleysið á löngum köflum þá hefði þetta mark breytt allri leikmynd leiksins og veitt heimakonum sennilega meiri trú á verkefnið. Stjörnur og skúrkar Sigurborg Sveinbjörnsdóttir, markvörður Víkings, var feikilega örugg í öllum sínum aðgerðum í dag og þurfti í þrígang að verja vel sem og hún gerði. Simona Meijer kom vel inn í liði Keflavíkur og greinilegt að um góðan liðsstyrk er um að ræða fyrir Keflavík. Anita Lind er skúrkurinn. Vítaspyrna hennar var alveg hræðileg. Spyrnan fór hátt, hátt yfir og gera má ráð fyrir að hún taki ekki margar vítaspyrnur í viðbót á þessu tímabili hið minnsta. Dómarar Dómari leiksins, Selma Griberg, dæmdi leikinn en hún er sænsk líkt og annar aðstoðardómari leiksins, Laura Rapp. Ástæða þess að þær dæmdu þennan leik er vegna samstarfs knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum um dómaraskipti. Allt dómarateymið í leiknum voru konur sem var skemmtilegt að sjá þar sem það er því miður ekki algengt. Selma var með ágæta stjórn á leiknum þrátt fyrir einhverja hnökra hér og þar. Stemning og umgjörð Mjög lágstemmd stemning á HS Orku vellinum í dag hjá þeim örfáu áhorfendum sem mættu. Má segja að um lágmarks umgjörð hafi verið í kringum þennan leik og lítið gert til að auka upplifun áhorfenda á vellinum eða tæla fleiri á völlinn. Svo vill oft verða hjá liðum sem leika í botnbaráttu svo gott sem allt tímabilið. Viðtöl Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, á hliðarlínunniVísir/Pawel Cieslikiewicz Jonathan Glenn: „Við gerðum allt hvað við gátum“ „Við gerðum allt hvað við gátum til þess að fá meira út úr þessum leik í dag allt frá byrjun. Skot í slá, markvörðurinn þeirra að verja nokkrum sinnum vel og svo vítið. Mér fannst seinni hálfleikurinn okkar eign, en í fótbolta þarftu að grípa tækifærin þegar þau gefast. Fyrsta markið sem við fengum á okkur, við hefðum átt að gera betur þar,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, beint eftir leik. „Við verðum að setja þennan leik fyrir aftan okkur og horfa til næstu leikja. Úrslitakeppnin er fram undan og allt getur gerst. Við eigum enn möguleika þannig að við getum tekið með okkur það hjarta sem við setjum í frammistöðuna okkar í síðustu leikjum, en úrslitin hafa ekki verið að nást þrátt fyrir fína frammistöðu. Við verðum þó að ná í úrslit nú þegar styttist í úrslitakeppnina.“ Keflavík frumsýndi tvo nýja leikmenn í dag, þær Simona Meijer og Ariela Lewis. Þeim er ætlað að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í Bestu deildinni. Simona Meijer skoraði mark Keflavíkur í dag og Ariela Lewis átti fína innkomu af bekknum í hálfleik. „Mér fannst þær gera vel. Simona átti frábært skot í fyrri hálfleik sem var varið í slá og skoraði að lokum markið okkar í dag, mér fannst hún góð. Ariela kom af bekknum og var traust og á bara eftir að vaxa innan liðsins. Við erum einnig með Saorla sem er bara nýstigin upp úr meiðslum. Alma er einnig að koma úr meiðslum. Ég er ánægður með leikmennina sem ég hef komandi inn í lokakafla tímabilsins. Þetta mun snúast um að ná í úrslit.“ Besta deild kvenna Keflavík ÍF Víkingur Reykjavík Íslenski boltinn Fótbolti
Keflavík fékk Víking í heimsókn í dag í Bestu deild kvenna. Var leikurinn liður í 16. umferð deildarinnar. Lauk leiknum með 1-2 sigri gestanna sem hafa þar með svo gott sem tryggt sig í efri hluta deildarinnar. Keflavík er enn í harðri fallbaráttu á botni deildarinnar. Gestirnir komust í forystu eftir aðeins um sex mínútna leik. Freyja Stefánsdóttir gaf þá boltann út í teig Keflavíkur, beint á Bergdísi Sveinsdóttur. Náði hún föstu skoti beint á markið sem Vera Varis, í marki Keflavíkur, réði ekki við. Á 23. mínútu dæmdi sænskur dómari leiksins, Selma Griberg, víti á Rachel Diodati fyrir klaufalegt brot á Melanie Claire Rendeiro. Anita Lind Daníelsdóttir fór á punktinn og lúðraði boltanum hátt yfir markið úr spyrnunni. Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta og mikið var um stöðubaráttu og klafs það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan 0-1 í hálfleik. Síðari hálfleiknum hófst líkt og þeim fyrri lauk og í raun lítið að gerast. Það var ekki fyrr en á 69. mínútu að það dró til tíðinda. Slapp þá Linda Líf Boama skyndilega ein í gegn eftir langa sendingu fram völlinn. Kláraði hún færið örugglega og kom Víkingi í þægilega tveggja marka forystu. Keflavík tókst þó að skora mark eftir hornspyrnu á 88. mínútu og hleypa lífi í lokamínúturnar. Simona Meijer var þar að verki í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík, en hún skoraði með föstum skalla. Keflavík tókst þó ekki að jafna leikinn og því fór sem fór. Lokatölur 1-2, líkt og fyrr segir. Atvik leiksins Vítaklúðrið hjá Anitu Lind var atvik leiksins. Miðað við gang leiksins og færaleysið á löngum köflum þá hefði þetta mark breytt allri leikmynd leiksins og veitt heimakonum sennilega meiri trú á verkefnið. Stjörnur og skúrkar Sigurborg Sveinbjörnsdóttir, markvörður Víkings, var feikilega örugg í öllum sínum aðgerðum í dag og þurfti í þrígang að verja vel sem og hún gerði. Simona Meijer kom vel inn í liði Keflavíkur og greinilegt að um góðan liðsstyrk er um að ræða fyrir Keflavík. Anita Lind er skúrkurinn. Vítaspyrna hennar var alveg hræðileg. Spyrnan fór hátt, hátt yfir og gera má ráð fyrir að hún taki ekki margar vítaspyrnur í viðbót á þessu tímabili hið minnsta. Dómarar Dómari leiksins, Selma Griberg, dæmdi leikinn en hún er sænsk líkt og annar aðstoðardómari leiksins, Laura Rapp. Ástæða þess að þær dæmdu þennan leik er vegna samstarfs knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum um dómaraskipti. Allt dómarateymið í leiknum voru konur sem var skemmtilegt að sjá þar sem það er því miður ekki algengt. Selma var með ágæta stjórn á leiknum þrátt fyrir einhverja hnökra hér og þar. Stemning og umgjörð Mjög lágstemmd stemning á HS Orku vellinum í dag hjá þeim örfáu áhorfendum sem mættu. Má segja að um lágmarks umgjörð hafi verið í kringum þennan leik og lítið gert til að auka upplifun áhorfenda á vellinum eða tæla fleiri á völlinn. Svo vill oft verða hjá liðum sem leika í botnbaráttu svo gott sem allt tímabilið. Viðtöl Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, á hliðarlínunniVísir/Pawel Cieslikiewicz Jonathan Glenn: „Við gerðum allt hvað við gátum“ „Við gerðum allt hvað við gátum til þess að fá meira út úr þessum leik í dag allt frá byrjun. Skot í slá, markvörðurinn þeirra að verja nokkrum sinnum vel og svo vítið. Mér fannst seinni hálfleikurinn okkar eign, en í fótbolta þarftu að grípa tækifærin þegar þau gefast. Fyrsta markið sem við fengum á okkur, við hefðum átt að gera betur þar,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, beint eftir leik. „Við verðum að setja þennan leik fyrir aftan okkur og horfa til næstu leikja. Úrslitakeppnin er fram undan og allt getur gerst. Við eigum enn möguleika þannig að við getum tekið með okkur það hjarta sem við setjum í frammistöðuna okkar í síðustu leikjum, en úrslitin hafa ekki verið að nást þrátt fyrir fína frammistöðu. Við verðum þó að ná í úrslit nú þegar styttist í úrslitakeppnina.“ Keflavík frumsýndi tvo nýja leikmenn í dag, þær Simona Meijer og Ariela Lewis. Þeim er ætlað að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í Bestu deildinni. Simona Meijer skoraði mark Keflavíkur í dag og Ariela Lewis átti fína innkomu af bekknum í hálfleik. „Mér fannst þær gera vel. Simona átti frábært skot í fyrri hálfleik sem var varið í slá og skoraði að lokum markið okkar í dag, mér fannst hún góð. Ariela kom af bekknum og var traust og á bara eftir að vaxa innan liðsins. Við erum einnig með Saorla sem er bara nýstigin upp úr meiðslum. Alma er einnig að koma úr meiðslum. Ég er ánægður með leikmennina sem ég hef komandi inn í lokakafla tímabilsins. Þetta mun snúast um að ná í úrslit.“