Þetta kemur fram á vef Veitna þar sem uppfærslur eru birtar.
„Verkið hefur gengið vel og við þökkum kærlega öllum íbúum fyrir samstarfið og skilninginn,“ segir Rún Ingvarsdóttir samskiptastjóri Veitna í samtali við fréttastofu.
Vinnu við tengingu Suðuræðar 2 lauk í gærkvöldi og byrjað var að hleypa vatni aftur á flutningsæðina fyrir miðnætti. Því lauk um miðja nótt.
„Áætlun um að opna samtímis á öll hverfin var aðlöguð aðstæðum þegar á leið. Vatni er hleypt á svæðin eitt af öðru meðfram lögninni og nú er Norðlingaholt, efri hverfin í Kópavogi og hluti af Garðabæ komin með góðan þrýsting,“ segir í uppfærslu frá því í morgun.
Mikilvægt sé að þau sem lokuðu fyrir inntakið hjá sér opni það hægt og rólega eftir leiðbeiningum frá Félagi pípulagningameistara.
„Verið er að opna fyrir vatnið hægt og rólega á önnur svæði eftir Suðuræð. Það tekur tíma að ná upp þrýstingi í dreifikerfinu, en þegar íbúar hafa fengið heitt vatn heim til sín þá fer það ekki aftur af nema eitthvað komi upp á.
Þegar vatninu er hleypt aftur á dreifikerfið geta komið upp lekar og verði fólk vart við slíkt utanhúss er mikilvægt að tilkynna það strax til Veitna í neyðarsímann 516 6161. Komi upp leki innanhúss þarf að hafa samband við pípara.“