Skoðun

Ef vel væri stjórnað

Hörður Filippusson skrifar

„ÞJÓÐNÝTING. Ebern heitir smábær einn í Bæheimi. Þar er gott að vera. Íbúarnir þurfa engin útsvör að greiða, en aftur á móti fá þeir útborgað úr bæjarsjóði sem svarar 60 mörkum (65 ísl. kr.) á ári á hvern mann.

Þessu víkur svo við, að Ebern á mikil skóglendi utan við bæinn og rekur þar skógarhögg og trjávinnslu með svo góðum árangri, að ágóðinn borgar öll útgjöld bæjarins og gefur auk þess afgang til þess að útbýta til bæjarmanna. Þar er gott að vera. En þessu líkt gæti víðar verið, ef vel væri stjórnað“.

Þennan tilvitnaða texta má lesa í riti sem hét fullu nafni „Almanak alþýðu, ársrit um gagnlegan fróðleik handa íslenzkri vinnustétt ásamt ýmsu til skemmtunar“. 1. ár 1930. Ritið var gefið út af Bókmenntafélagi jafnaðarmanna.

Það er því engin nýung að íslenskir jafnaðarmenn horfi til þess að arður af auðlindum í eigu þjóðarinnar nýtist til samfélagslegra verkefna í stað þess að renna í vasa auðmanna. Þessi litla saga er góð áminning fyrir okkur nú.

Við íslendingar eigum gnægð auðlinda sem ekki nýtast samfélaginu sem skyldi. Að bestu manna yfirsýn telst auðlindarenta af náttúruauðlindum Íslands ekki í milljörðum, ekki tugum milljarða, líklega hundruðum milljarða. Réttmætur eigandi hennar þarf að sjá til þess að arðurinn renni í sameiginlega sjóði. Þetta fé gæti skipt sköpum fyrir vanfjármagnað velferðarkerfi. Til að svo megi verða þarf öfluga löggjöf sem tekur af öll tvímæli um eiganda auðlindanna og auðlindarentunnar. Þá væri hér gott að vera. Svo gæti verið ef vel væri stjórnað.

„Vituð ér enn eða hvað“?

Höfundur er jafnaðarmaður.




Skoðun

Sjá meira


×