Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Hann segir að rannsókn málsins hafi miðað vel hingað til og sé í föstum farvegi. Sá grunaði, sextán ára piltur, verði í gæsluvarðhaldi til 26. þessa mánaðar.
Krufning fer fram í vikunni
Grímur sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að lögregla myndi rannsaka ætlaðan ásetning hins grunaða í kjölfar þess að stúlkan lést af sárum sínum. Hann segir ekki tímabært að greina frá þeirri rannsókn.
Þá segir hann að lík hinnar látnu verði krufið í vikunni, bíða þurfi bráðabirgðaniðurstöðu krufningar áður en greint verður frá banameini hennar.
Pilturinn útskrifaður af sjúkrahúsi
Ásamt stúlkunni sem lést urðu tveir aðrir fyrir áverkum í árásinni, piltur og stúlka. Hin stúlkan særðist nokkuð og lá á sjúkrahúsi í nokkra daga. Pilturinn var stunginn nokkrum sinnum og hlaut skurðsár í handarkrika, við brjóst og á hönd. Hann lá lengur á sjúkrahúsi en var útskrifaður á föstudag, sama dag og stúlkan lést af sárum sínum.
Grímur segir hluta rannsóknarinnar vera að greina tengsl þeirra sem urðu fyrir árásinni og árásarmannsins. Ekkert sé hægt að segja til um þau að svo stöddu.