Sinwar tók við stjórn Hamas eftir að Ismail Haniyeh var ráðinn af dögum í Íran í júlí.
Auk Sinwar eru fimm aðrir ákærðir. Þeirra á meðal er Mohammad Al-Masri, sem var leiðtogi al-Qassam-stórfylkisins svokallaða, sem er herskár armur Hamas. Marwan Issa er einnig ákærður en hann var næstráðandi al-Qassam og er talinn hafa fallið í mars.
Khaled Meshaal, er æðsti erindreki Hamas-samtakanna en hann heldur til í Katar en hann var einnig ákærður auk Ali Baraka, sem er einni erindreki Hamas-samtakanna en hann er talinn halda til í Líbanon.
Þá var Haniyeh einnig ákærður en eins og áður segir var hann ráðinn af dögum í sumar.

Bandaríkjamenn saka einnig Íran og Hezbollah-samtökin í Líbanon um að styðja Hamas fjárhagslega og efnislega með vopnum og öðrum hergögnum. Bandaríkin skilgreindur Hamas-samtökin sem hryðjuverkasamtök árið 1997.
Nærri því 1.200 manns féllu í árásum Hamas-liða og annarra vígamanna á suðurhluta Ísrael þann 7. október og var fjölda fólks einnig rænt og þau flutt til Gasa-strandarinnar. Rúmlega fjörutíu Bandaríkjamenn voru meðal þeirra sem dóu.
Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) er með málið til rannsóknar.
Þrír af sex látnir
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að ákærurnar, sem voru fyrst gefnar út í febrúar en innsiglaðar, þar til í gær, gætu í rauninni haft lítil áhrif þar sem Sinwar er talinn vera í felum í neðanjarðargöngum undir Gasa og að þrír af þeim sex sem eru ákærðir eru taldir látnir.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra, sagði í yfirlýsingu í gær að von væri á frekari aðgerðum gegn Hamas.
Ákærurnar voru opinberaðar á sama tíma og erindrekar Bandaríkjanna, auk erindreka frá Egyptalandi og Katar, vinna að því að reyna að koma á vopnahléi milli Ísraela og Hamas og binda enda á stríðið á Gasaströndinni, sem staðið hefur yfir í tæpa ellefu mánuði.
AP hefur eftir bandarískum embættismanni sem kemur að viðræðunum að ákærurnar ættu ekki að koma niður á þeim viðræðum.