Þetta staðfesti Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við Vísi. Fótbolti.net greindi fyrst frá málinu.

Fyrsti heimaleikur Víkings verður gegn Cercle Brugge 24. október, þeir fá svo FK Borac í heimsókn 7. nóvember og Djurgarden 12. desember.
UEFA leggur áherslu á að allir leikirnir fari fram á sama velli, því kemur ekki til greina að spila á Laugardalsvelli sem verður ekki leikfær í desember.
Víkingsvöllur uppfyllir ekki kröfur og er algjörlega úr myndinni. Framvöllur í Úlfarsárdal uppfyllir ýmsar kröfur en ekki allar og þykir óhentugur.

Kópavogsvöllur er að svo stöddu álitlegasti kosturinn, uppfyllir öryggiskröfur en það þyrfti að bæta lýsinguna. Leigður yrði ljósabúnaður, ekki til eignar, sem myndi kosta 35 til 50 milljónir króna. Kostnaður sem Haraldur segir sambærilegan við að flytja liðið þrisvar sinnum til Færeyja og baka.
Lokafrestur til að tilkynna heimavöll rann út á föstudag, og Víkingur tilgreindi þar Þórsvöll í Færeyjum, en fékk samþykkt af UEFA að breyta heimavellinum á mánudag ef þess gefst kostur.

Staðan er því svo að Víkingur mun að óbreyttu spila heimaleiki sína í Færeyjum. „Neyðarkall“ var sent út til ríkis og borgar í gær þar sem óskað var eftir lausnum, Haraldur segir KSÍ hafa hjálpað Víkingi mikið en hvorugur aðili sé fær um að bera kostnaðinn, það verði ríkið og borgin að gera.
Viðbrögðin hafi þó verið góð og strax séu hlutir komnir á hreyfingu. Hann trúir ekki öðru en að lausn finnist og íslenskur fótbolti verði spilaður áfram á Íslandi.