Mikið hvassviðri hefur verið á svæðinu síðustu daga. Veginum, sem tengir Austfirði og Norðurland, var lokað um tíma í fyrradag vegna veðurs og þegar starfsmenn Vegagerðarinnar mættu á svæðið í gærmorgun hafði klæðingin fokið af á fimm stöðum á fimmtán kílómetra kafla. RÚV greindi fyrst frá málinu.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist aldrei hafa séð svo mikið magn af klæðingu fjúka af vegi.
„Það er ekki algengt að þetta gerist en þetta gerist við og við víða á landinu. Að klæðingin flettist svona ofan af. Þetta gerist þegar vindur kemst undir kant einhversstaðar, þá nær það að fletta þessu svona af. Fer undir klæðinguna og rífur hana af,“ segir G. Pétur.

Búið er að hreinsa svæðið og laga veginn til bráðabirgða. Það ætti að vera öruggt að aka veginn. Hins vegar er mikilvægt að ökumenn fari eftir merkingum á svæðinu og aka varlega.
„Það má alltaf búast við því að þetta geti gerst. Það er erfitt við það að eiga. Íslenska veðrið er einfaldlega þannig,“ segir G. Pétur.

Starfsmenn stofnunarinnar fara á svæðið eftir helgi og leggja nýja klæðingu þar hún hefur fokið af.
„Núna í þessu tilviki er það nauðsynlegt að fara varlega yfir þessa fimmtán kílómetra. Svo er það það venjulega, að haga akstri eftir aðstæðum hverju sinni,“ segir G. Pétur.