Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að líklega muni Rússar byrja að nota þessar eldflaugar innan nokkurra vikna. Ekki liggur fyrir hversu margar skotflaugar um er að ræða en fregnir hafa borist af því að þær séu fleiri en tvö hundruð og af gerðinni Fath-360.
Áður hafa Rússar fengið Shahed-sjálfsprengidróna frá Íran, auk annarra hergagna og skotfæra. Þeir hafa einnig fengið stýri- og skotflaugar og mikið magn sprengikúla fyrir stórskotalið frá Norður-Kóreu. Þessi hergögn hafa verið mikið notuð í Úkraínu.
Erfitt er að skjóta niður skotflaugar, sem á ensku kallast „ballistic missiles“ en þær fljúga hátt til himins, upp í gufuhvolfið, og falla sprengjur þeirra svo til jarðar á miklum hraða. Þá geta eldflaugarnar lent án mikils fyrirvara á jörðu niðri.
Kaup Rússa á vopnum frá Norður-Kóreu eru brot á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem Rússar hafa neitunarvald.
Sjá einnig: Rússar sagðir nota skotflaugar frá Norður-Kóreu
Ráðamenn í Úkraínu hafa um nokkuð skeið kallað eftir því að bakhjarlar þeirra á Vesturlöndum felli niður takmarkanir sem settar hafa verið á úkraínska hermenn. Þeim hefur að mestu verið meinað að nota vestræn vopn og eldflaugar á skotmörk innan landamæra Rússlands.
Úkraínumenn segja nú enn brýnna að þessar takmarkanir verði felldar niður, svo Úkraínumenn geti gert árásir á vopnabúr Rússa og skotfærageymslur þar sem eldflaugar eru geymdar, svo Rússar geti ekki skotið þeim á borgir og bæi Úkraínu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Íranar neita
Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, var í gær spurður út í mögulegar eldflaugasendingar frá Íran til Rússlands. Hann sagði Íran mikilvægt bandalagsríki Rússlands og að samband ríkjanna og viðskipti þeirra á milli væru í sífelldri þróun.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Írans þvertók í gær fyrir að þessar sendingar hefðu átt sér stað. Þessar fregnir væru pólitískar í eðli sínu og þeim væri ætlað að koma höggi á Íran.