Nóel Atli kom inn í lið Álaborgar undir lok síðasta tímabils þegar liðið tryggði sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni á nýjan leik. Hann hefur síðan verið lykilmaður í upphafi tímabils og komið við sögu í öllum leikjum liðsins til þessa.
Hann nældi sér í gult spjald gegn Randers í síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé ásamt því að verða fyrir smávægilegum meiðslum. Í viðtalinu við Fótbolti.net sagði Nóel Atli að „um lítið brot í sköflungsbeini sé að ræða.“
Nóel Atli var valinn í U-19 ára landslið Íslands sem mætti Mexíkó, Katar og Kasakstan í vináttulandsleikjum sem fram fóru í Slóveníu. Vegna meiðslanna gat hann þó ekki verið með er Ísland vann Mexíkó 3-0 og Kasakstan 5-2 en mátti þola 0-1 tap gegn Katar.
Alls hefur varnarmaðurinn efnilega spilað 14 landsleiki fyrir U15 til U19 ára lið Íslands. Hann vonast til að snúa til baka um miðjan október næstkomandi.