Á morgun verður samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings norðan og norðvestan 8 til 15 metrar á sekúndu, en hægari vindur vestantil. Þá má búast við rigning eða slydda á norðan- og austanverðu landinu en annars bjart með köflum. Seinnipartinn á morgun á svo að draga úr vindi og úrkomu. Hiti breytist lítið.
Á mánudag verður svo stíf suðaustanátt með rigningu í flestum landshlutum, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 6 til 12 stig. Nánar um veðrið á vef Veðurstofunnar.
Vara við snörpum vindhviðum
Á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, er varað við snörpum vindhviðum á meðan gul viðvörun er í gildi. Það geti verið sérstaklega varasamt fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind. Vegfarendur slíkra bíla eru beðnir um að fylgjast með veðri áður en lagt er af stað í ferðalag.
Þá má sjá að nokkuð greiðfært er um land allt en margir vegir á hálendi orðnir ófærir eða ekki vitað um ástand þeirra.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðan og norðvestan 8-15 m/s en heldur hvassari austast. Rigning með köflum á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á Suðausturlandi. Hægari vindur og úrkomuminna um kvöldið.
Á mánudag:
Gengur í suðaustan 10-18, hvassast syðst. Víða rigning en úrkomuminna á Norðurlandi. Hiti 7 til 12 stig.
Á þriðjudag:
Suðlæg átt, víða 5-13 og dálítil rigning í flestum landshlutum, en norðaustan 8-15 norðvestantil. Hvessir aftur og bætir í rigningu seinnipartinn. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.
Á miðvikudag:
Suðvestlæg átt og skúrir, en norðaustanátt með slydduéljum norðvestanlands. Þurrt að kalla norðaustan- og austanlands. Hiti 7 til 15 stig, en 2 til 7 stig á Vestfjörðum.
Á fimmtudag:
Suðvestlæg átt með lítilsháttar vætu, en að mestu þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 5 til 10 stig.
Á föstudag:
Útlit fyrir suðlæga átt. Dálítil væta á víð og dreif og hiti breytist lítið.