„Mér líður bara mjög vel. Sigur og við klárum þessa 22 leiki í fjórða sæti sem er bara geggjað hjá okkur. Gaman að geta hjálpað liðinu loksins, eiginlega í fyrsta skipti á þessu ári,“ sagði Rúnar eftir leikinn.
Leikurinn var lokaður og mikil stöðubarátta á köflum. Leikurinn gerðist mikið á miðjunni en Rúnar lætur vel af sér eftir þessar fyrstu 90 mínútur.
„Þetta var bara bæði og (erfitt og ekki). Ég held þetta hafi ekkert verið neitt rosalega fallegt, völlurinn var mjög þurr og það var erfitt að láta boltann flæða eitthvað. Gaman í svona baráttu en auðvitað var ég orðinn þreyttur í lokinn. Ég hef lítið æft á þessu ári með liðinu. Gott að geta siglt þessu með þremur punktum,“ sagði Rúnar og hélt svo áfram,
„skrokkurinn er bara fínn. Ég held að núna síðustu tvær vikur náði ég að æfa allar æfingar, án þess að vera nánast bara á hækjum á milli. Þess vegna náði ég að spila í dag. Við vorum ekkert vissir hvort ég næði hálfleik, 60mín, 70mín, við ætluðum bara að sjá til. Þetta gekk fínt og ég er mjög sáttur.“
Framundan er barátta Skagamanna við hin fimm liðin í efri hlutanum. ÍA á möguleika á Evrópusæti og Rúnar segir liðið stefna á það.
„Ég er bara spenntur. Ég hef ekki verið í þessu úrslitaformi hérna heima áður. Við erum jákvæðir. Það eru allir í góðu standi og það er hugur í hópnum. Við stefnum bara ofar ef eitthvað er og ætlum að vera í þessari Evrópubaráttu til loka, það er klárt,“ sagði Rúnar að lokum.