Erlent

Á­kærur gefnar út og Sean Combs hand­tekinn í New York

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Combs í Lundúnum í fyrra.
Combs í Lundúnum í fyrra. Getty/Mega/GC Images

Tónlistar- og athafnamaðurinn Sean Combs, betur þekktur sem Diddy eða Puff Daddy, var handtekinn á Manhattan í New York í gærkvöldi eftir að ákærur voru gefnar út á hendur honum. 

Ákærurnar hafa verið innsiglaðar en New York Times hefur eftir Marc Agnifilio, einum lögmanna Combs, að talið sé víst að þær varði mansal og skipulagða glæpastarfsemi (e. racketeering).

Í yfirlýsingu frá teymi Combs segir að ákærurnar séu vonbrigði og að hann hafi sýnt fullan samstarfsvilja, meðal annars ferðast til New York þegar fyrir lá að niðurstaða ákærukviðdóms var væntanleg.

Þá segir að Combs sé ekki fulkomin manneskja en hann sé ekki glæpamaður.

Saksóknarar gera ráð fyrir því að ákæruefnin verði gerð opinber, jafnvel strax í dag.

Að sögn Agnifilio var Combs handtekinn á hóteli um klukkan 20.30 í gærkvöldi að staðartíma. Gert er ráð fyrir að hann mæti fyrir dómara í dag.

Combs, 54 ára, hefur verið sakaður um ýmis brot en það vakti mikla athygli þegar myndskeið birtist af honum þar sem hann gekk í skrokk á þáverandi kærustu sinni, tónlistarkonunni Casöndru Ventura.

Ventura höfðaði mál gegn Combs í fyrra vegna ofbeldisbrota til margra ára en tónlistamaðurinn neitaði sök þar til myndskeiðið komst í dreifingu. Ventura og Combs gerðu sátt í málinu.

Leit var gerð á heimilum Combs í Los Angeles og Miami í mars síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×