Flóðin hafa sett hluta Austurríkis, Tékklands, Póllands og Rúmeníu á kaf eftir að djúp lægð framkallaði gríðarlegar rigningar á svæðinu sem staðið hafa í marga daga. Búist er við að ásandið eigi eftir að versna þegar líður á vikuna í fleiri löndum á borð við Slóvakíu og Ungverjaland.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á flóðasvæðunum í Póllandi þar sem stíflur hafa brostið og ár flætt víða yfir bakka sína. Í suðvesturhluta landsins þurfti að rýma spítala þar sem fjörutíu sjúklingar lágu inni og víða eru skólar og skrifstofur lokaðar vegna ástandsins.

Í Mjanmar eru einnig hamfarir vegna flóða sem komu í kjölfar þess að fellibylurinn Yagi gekk yfir í byrjun mánaðarins. Í landinu eru nú 220 látnir af völdum veðursins og áttatíu til viðbótar saknað og á öllu svæðinu, sem telur auk Mjanmar; Víetnam, Laos og Tæland hafa um fimmhundruð látið lífið.
Flestir hinna látnu í Mjanmar fórust í aurskriðum sem komu í kjölfar óveðursins sem sópuðu heilu þorpunum á brott. Þá vara Sameinuðu þjóðirnar við því að hungursneið gæti verið yfirvofandi í hinu stríðshrjáða landi þar sem fleiri hektarar ræktarlands eyðilögðust í hamförunum.

Og í Portúgal hafa rúmlega fimmþúsund slökkviliðsmenn barist við kjarr- og skógarelda vítt og breitt um landið.
Forsætisráðherrann Louis Montenegro segir að einn slökkviliðsmaður hafi nú þegar látið lífið en hitinn fór víða yfir þrjátíu gráður í landinu um helgina og er búist við svipuðu veðri á næstunni og lítil von um rigningu.
Auk slökkviliðsmannsins sem fórst er vitað um tvö dauðsföll af völdum eldanna. Á svæðinu á milli Porto og Aveiro í Norðri hafa um tíu þúsund hektarar brunnið frá því um helgina og eins og staðan er nú eru um 127 virkir eldar í gangi í öllu landinu, að sögn BBC.