Innlent

Fjarðar­heiði lokuð og bílar fastir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vetrarfærð er á Fjarðarheiði.
Vetrarfærð er á Fjarðarheiði. Vegagerðin

Fjarðarheiði hefur verið lokað vegna umferðarteppu, en þar eru hálkublettir, éljagangur og nokkur vetrarfærð. Verkstjóri hjá Vegagerðinni segir þó að ekki ætti að taka langan tíma að opna heiðina aftur.

„Þetta kemur svolítið hratt þegar þetta byrjar. Svo er bara erfitt fyrir mokstursmenn að athafna sig þegar það eru margir bílar stopp út af hálku og slabbi,“ segir Andri Hrafn Backman Karlsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ. 

Hann er ekki með nákvæma tölu á þeim bílum sem eru nú fastir uppi á heiði, en segist hafa frá ökumanni mokstursbíls að þeir séu þó nokkrir. 

Hann segir vetrarveðrið aðallega bundið við hæsta stað heiðinnar. 

„Það er aðallega þegar þú ert kominn aðeins upp, núna stend ég hér í Fellabæ og það er bara fínt hér. Um leið og þú ert kominn upp á fjallvegina þá er éljagangur, en ég er ekki viss um að það sé mikið rok. Það eru bílar þarna á sumardekkjum og ferjudagur, þannig að það spilar ekki margt með okkur í þessu.“

Mjakast allt 

Andri segist ekki eiga von á því að langan tíma taki að opna heiðina að nýju.

„Það þarf bara að mjakast í þessu, þessir bílar þurfa eflaust að komast frá eða mokstursmaðurinn fram hjá þeim,“ segir hann. 

„Hann er bara að vinna í þessu og ég hef ekki trú á því að hann verði mjög lengi ef það eru ekki allt of margir fyrir honum. Þetta blessast allt hjá okkur, ég er ekkert allt of svartsýnn. Þetta hlýtur að koma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×