„Ofbeldi og vopnaburður meðal barna og ungmenna er samfélagslegt vandamál sem við verðum að taka alvarlega. Það er óásættanlegt að börn og ungmenni upplifi sig óörugg í frítíma sínum og daglegum athöfnum. Skólar, frístundastarf og félagsmiðstöðvar í Kópavogi munu leggja sitt af mörkum með því að ræða ofbeldi á opinskáan hátt og taka afdráttarlausa afstöðu gegn því,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi Pírata.

Hún segir að ráðið hafi fjallað um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna á fundi sínum í síðustu viku eftir að hún bað um að það yrði sett á dagskrá.
Gengið vel í Reykjavík
Upphaflega átti að hefja innleiðingu verkefnisins á næsta skólaári en Sigurbjörg segir þverpólitíska samstöðu um að hefja innleiðinguna fyrr.
„Verkefnið, sem hefur gefið góða raun í Reykjavíkurborg, snýst um að gera starfsfólk betur í stakk búið til að tala um og bregðast við ofbeldi ásamt því að efla börn í að fjalla um ofbeldi og taka afstöðu gegn því,“ segir Sigurbjörg.
Hún segir innleiðinguna meðal annars felast í fræðslu til kennara og annars starfsfólks skóla- og frístunda og skýra verkferla sem snúa að tilkynningum til barnaverndar ásamt því að tryggja að börn viti af þeirri hjálp sem völ er á.