Hundrað og fjörutíu ræðismenn Íslands í sjötíu og einu landi eru nú staddir í Reykjavík til skrafs og ráðagerða en ræðismenn Íslands eru mun fleiri eða 230 víðs vegar um heiminn.
Einn af þeim er Andrii Deshchytsia með aðsetur í borginni Lviv í vestuhluta Úkraínu. Á árunum 2008 til 2012 var hann sendiherra Úkraínu fyrir Ísland með aðsetur í Helsinki. Nú þegar hátt í þrjú ár eru frá innrás Rússa segir hann Úkraínumenn staðráðna í að vinna sigur á Rússum, þrisvar sinnum fjölmennari þjóð.

„Baráttuandinn skiptir miklu máli í stríði og baráttuandi Úkraínumanna er mjög mikill,” segir Deshchytsia. Aðstæður væru að sjálfsögðu mjög krefjandi og þreyta í fólki eftir nær þriggja ára baráttu.
„En við vitum fyrir hverju við berjumst. Við berjumst fyrir landfræðilegu fullveldi okkar, fyrir frelsið og framtíðina. Og við berjumst fyrir stöðugleika og friði á meginlandi Evrópu,“ segir ræðismaðurinn.
Úkraína ætli ekki að láta Rússa komast upp með að fara á svig við alþjóðlög. Margvíslegur stuðningu Íslendinga við Úkraínu væri mjög mikilvægur.
„Bæði mánnúðaraðstoðin og hafa samþykkt móttöku á fólki frá Úkraínu. Það eru rúmlega fjögur þúsund manns. Það er farið mjög vel með þau og þau hafa fengið hlýjar móttökur. Þá erum við mjög þakklát fyrir málfluting Íslands á alþjóðavettvangi,” segir Andrii Deshchytsia. Það skipti máli að Íslandi hvetji einnig önnur ríki áfram til stuðnings við Úkraínu.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra ávarpaði ræðismennina í morgun á fyrra degi heimsóknar þeirra til Íslands. Hún segir framlag 230 ræðismanna Íslands ómetanlegt.
„Það eru mismunandi rök fyrir mikilvæginu á hverjum stað. En alls staðar er þetta verðmæti fyrir íslenskt samfélag, Íslendinga, verðmætasköpun, menningu, kynningu og þetta mjúka vald sem við stöndum í rauninni á þegar allt kemur til alls,“ segir Þórdís Kolbrún.

Elizabeth Sy ræðismaður í Manilla á Filipseyjum segir að efla mætti viðskiptatengsl landanna á sviði tækni. Hún hafi hitt fjölmarga af þeim fjögur þúsund Filipseyingum sem búa á Íslandi og þeir væru mjög ánægðir með dvölina.
„Já, þeir eru það. En margir þeirra virðast þó eiga erfitt með að tileinka sér íslenskuna,“ segir Elizabeth Sy.