Í ályktuninni segir einnig að ríkisstjórnin hafi verið upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og þannig hafi komist á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna. Síðan þá hafi hreyfingin náð fram mörgum mikilvægum málum en að brýn verkefni séu fram undan. Landsfundurinn telji að takast verði á við þau á félagslegum grunni.
„Ég get svarað þessu eins og ég svaraði því þegar ég var spurð fyrst þegar Svandís setti þetta fram. Þetta er eitthvað sem þau leggja fram og allir hafa rétt á, en samtalið er á milli formannanna þriggja.“
Hún segir ályktunina í takt við það sem Svandís hefur áður sagt og því komi ekki á óvart að hún hafi verið samþykkt svona. Það hefði komið meira á óvart ef upprunaleg tillaga um að slíta samstarfinu núna hefði verið samþykkt. Það væri ekki í takt við orðræðu nýs formanns.
„Það er eðlilegt að flokkurinn fylgi nýjum formanni. En að því sögðu þá er ábyrgðarhluti að vera í ríkisstjórn og það er formannanna þriggja að taka þetta samtal.“
Augljóst að samstarfið sé komið að leiðarlokum
Hvað varðar orðalag í ályktuninni um að samstarfið sé komið að leiðarlokum segir Ingibjörg það augljóst.
„Þetta er eitthvað sem liggur í augum uppi. Það er ár eftir að kjörtímabilinu. Þetta er kosningavetur og fyrir mér eru þetta ekki nýjar fréttir. Það er að koma að leiðarlokum,“ segir Ingibjörg.
Sjá einnig: Erfitt að setja tölu á hve margir vilji stjórnarslit
Hún segir Framsóknarflokkinn stefna að því að ljúka kjörtímabilinu. Það séu verkefni fram undan sem séu mikilvæg fyrir samfélagið allt.
„Það er það sem við horfum á og vinnum eftir.“