Enski boltinn

Síðasta tíma­bil Haaland með Manchester City?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haaland hefur byrjað tímabilið á Englandi stórkostlega. Hann er nú sagður vilja flytja sig til Spánar að tímabilinu loknum.
Haaland hefur byrjað tímabilið á Englandi stórkostlega. Hann er nú sagður vilja flytja sig til Spánar að tímabilinu loknum. Vísir/Getty

Erling Haaland gæti verið að leika sitt síðasta tímabil með Manchester City. Fregnir á Spáni herma að Norðmaðurinn hafi áhuga á að spila í La Liga frá og með næsta tímabili.

Erling Haaland hefur byrjað tímabilið á Englandi algjörlega stórkostlega og er búinn að skora tíu mörk í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Haaland er á sínu þriðja tímabili með Manchester City en þar áður lék hann með þýska liðinu Dortmund í tvö ár og austurísaka félaginu RB Salzburg í eitt ár þar á undan.

Nú greinir katalónska síðan El Nacional hins vegar óvænt frá því að Haaland vilji færa sig um set og taka næsta skref á ferlinum. Samkvæmt frétt katalónska miðilsins er Haaland spenntur fyrir að spila í La Liga deildinni á Spáni og þar eru það stórlið Real Madrid og Barcelona sem myndu koma til greina sem mögulegur áfangastaður.

Real Madrid yrði ekki í vandræðum með að safna saman þeirri peningaupphæð sem þyrfti til að losa Haaland undan samningi hjá Manchester City en Haaland er með samning við City til ársins 2027. Barcelona hefur aftur á móti verið í fjárhagsvandræðum síðustu misserin en eru engu að síður sagðir vilja vera með í baráttunni um Haaland ef möguleikinn á að fá hann kemur upp.

Þá er franska stórliðið PSG einnig sagt áhugasamt um þjónustu Norðmannsins sem á þó að hafa komið þeim skilaboðum til Parísar um að hann hafi ekki áhuga á að leika í frönsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×